Engin ESB-aðild án atbeina Sjálfstæðisflokks

Björn Bjarnason og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Alþingi.
Björn Bjarnason og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Alþingi.

Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að þeir sem standa að söfnun undirskrifta undir kjörorðinu sammala.is, verði að átta sig á því, að markmið þeirra um aðild Íslands að Evrópusambandinu náist ekki, nema þeim takist að vinna málstað sínum fylgis innan Sjálfstæðisflokksins.

Björn segir í grein á vefsíðunni amx.is, að eina raunhæfa leiðin að markmiðum sammala.is sé, að málsvarar þeirrar stefnu styrki stöðu sína í Sjálfstæðisflokknum, efli hann með atkvæði sínu og leitist við að breyta Evrópustefnu hans. Á vettvangi Sjálfstæðisflokksins ráðist að lokum, hvort Ísland gengur í Evrópusambandið.

„Varðstaða okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins um stjórnarskrána á lokadögum alþingis sýnir, hve fráleitt er að ætla sér að ná svo stóru máli fram, án þess að vinna sér stuðning sjálfstæðismanna. Hið sama á við um aðild að Evrópusambandinu. Hún nær aldrei fram að ganga á Íslandi, nema Sjálfstæðisflokkurinn leggi henni lið. Málið er svo einfalt," segir Björn og bætir við að það hafi auðveldað andstæðingum ESB-aðildar róðurinn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins,hve ögrandi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, hélt á Evrópumálum gagnvart sjálfstæðismönnum.

„ Á sama hátt þjappaði það okkur þingmönnum flokksins saman vegna stjórnarskrárbreytinganna, hve ögrandi Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi formaður Samfylkingarinnar, hélt á stjórnarskrármálinu. Hvorugri er það til lista lagt að laða sjálfstæðismenn til samstarfs við sig," segir Björn.

Grein Björns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert