Evrópustefnan verði á hreinu

Björgvin G. SIgurðsson alþingismaður og fyrrverandi ráðherra.
Björgvin G. SIgurðsson alþingismaður og fyrrverandi ráðherra. mbl.is/Golli

Björgvin Sigurðsson, alþingismaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra, sagði á framboðsfundi Ríkissjónvarpinu í Suðurkjördæmi sem nú stendur yfir á Selfossi, að samstarf í ríkisstjórn eftir kosningar komi ekki til greina nema Evrópustefnan verði á hreinu.

Björgvin sagði á fundinum að Samfylkingin myndi ekki veita neinn afslátt í þessu máli aftur. Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og VG, eru á öndverðum meiði hvað ESB varðar.

Í kosningaumræðum á Stöð 2 í kvöld sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar að aðildarviðræður við Evrópusambandið væri fyrsta mál á dagskrá og brýnasta verkefnið framundan og flokkurinn myndi leggja höfuðáherslu á Evrópusambandsaðild í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar.

Á sama fundi sagði Katrín Jakobsdóttir, alþingmaður VG og menntamálaráðherra, að enginn gæti sett ófrávíkjanlega kröfu í stjórnarmyndunarviðræðum.

Miðað við skoðanakannanir ná Samfylkingin og Vinstri hreyfingin - grænt framboð meirihluta á alþingi eftir kosningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert