Færri þingmenn

„Við viljum að ráðherrar séu valdir á faglegum forsendum. Við teljum til dæmis ekki rétt að það sé dýralæknir eða jarðfræðingur sem hafi með höndum öll fjármál þjóðarinnar. Við viljum að fyrst sé kosið Alþingi, með 31 þingmanni en þingið kjósi síðan ráðherrana. Þeir væru ekki alþingismenn og sætu alla jafna ekki á þingi,“ sagði Ástþór Magnússon, talsmaður Lýðræðishreyfingarinnar í Zetunni á mbl.is.

Ástþór var gestur þeirra Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur og Agnesar Bragadóttur í Zetunni.

Ástþór sagðist hafa eytt um 300 þúsund krónum í kosningabaráttu fyrir Lýðræðishreyfinguna það sem af er. Hann sagði nýstofnaða útvarpsstöð, Lýðvarpið FM 100,5 ekki setta upp vegna kosninganna, það væri aðskilið fyrirtæki og rekið sjálfstætt.

Talið barst að ritskoðun í spjalli við Ástþór. Hann sagði ritstjóra Morgunblaðsins hafa ritskoðað grein sem Ástþór skrifaði sem svar við viðhorfsgrein Agnesar Bragadóttur og birtist í Morgunblaðinu um helgina.

„Ritstjórinn hérna hann krafðist þess að ég kallaði þig ekki gagghænu en mér finnst þú vera gagghæna útrásarvíkinganna. Ég mátti ekki kalla þig þetta,“ sagði Ástþór.

Ástþór sagðist hafa fallist á að breyta orðalaginu og birtist svargrein hans væntanlega á morgun. Eftir nokkur orðaskipti rétti Ástþór fram höndina og tókust þau í hendur, hann og Agnes Bragadóttir.

Ástþór segist vongóður um að ná inn á þing næstkomandi laugardag.

„Já, alveg örugglega kemst ég inn á þing á laugardag. En ég mundi gjarnan vilja sjá stutt kjörtímabil, ég vil koma inn, taka til hendinni og hreinsa hérna til, endurskipuleggja og ná fram hagræðingu, laða hingað heim atvinnustarfsemi en svo mundi ég vilja snúa mér að öðru,“ segir Ástþór Magnússon.

Ástþór Magnússon sat fyrir svörum hjá Agnesi Bragadóttur og Þóru …
Ástþór Magnússon sat fyrir svörum hjá Agnesi Bragadóttur og Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert