Niðurfelling skulda raunhæf leið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Kosningarnar á laugardaginn kemur kunna að verða mikilvægustu kosningar í sögu íslenska lýðveldisins, að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Þær ráða ekki einungis því hvernig við vinnum okkur út úr kreppunni heldur einnig samfélagsgerðinni í framhaldinu.

Þetta kom m.a. fram á morgunverðarfundi Framsóknarflokksins á Grand Hóteli Reykjavík í morgun. Þar kynnti Sigmundur og útskýrði tillögur flokksins um 20% leiðréttingu lána. Hann sagði mikilvægt að aðstæðurnar eftir kosningar verði þannig að velferð allra verði tryggð í hinni nýju samfélagsgerð.

Sigmundur sagði að tillaga Framsóknarflokksins um 20% niðurfellingu skulda hafi verið unnin í samráði við innlenda og erlenda hagfræðinga. Hann sagði að til þessa hafi ekki komið fram neinar aðrar raunhæfar tillögur um lausn á efnahagsvandanum.

Þessi lausn byggi á því að afskriftir lána sem þegar hafi verið gerðar verði látnar ganga áfram til skuldara. Það sé því rangt að þessi leið muni kosta ríkið eða skattgreiðendur mikið. Sigmundur sagði að erlendar kröfur, skuldabréf kröfuhafa í bönkunum, gangi nú kaupum og sölum á eitt eða tvö prósent af upprunalegu verði. Erlendir kröfuhafar sem lánuðu hingað þúsundir milljarða króna geri því ráð fyrir að fá eina eða tvær evrur til baka af hverjum hundrað sem lánaðar voru hingað.

Nú er verið að flytja lánin úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með a.m.k. 50% afföllum, að sögn Sigmundar. Hann sagði að skýrsla um það hafi átt að vera komin fram, en birting hennar hafi af einhverjum orsökum tafist.  „Maður veltir því fyrir sér hvort það kunni ekki að hafa eitthvað með það að gera að skýrslurnar staðfesta það að ástand íslenskra lántakenda er miklu alvarlegra en látið hefur verið í veðri vaka og þær aðferðir sem nefndar hafa verið duga ekki til.“

Sigmundur taldi að 20% leiðrétting lána myndi skila mestu fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Hann sagði að þessi leiðrétting myndi ekki nægja þeim sem eru verst settir og breytti því engu fyrir þá né lánveitendur þeirra. Þessu fylgdi enginn kostnaður því lánin væru töpuð og meira til.

Sá hópur sem öllu skiptir eru þeir sem eru á mörkunum að geta komist af. Þeir sem 20% skuldaleiðrétting gerir kleift að halda áfram að greiða af lánum sínum. Sigmundur sagði að við núverandi aðstæður sé ekki raunhæfur kostur að ganga að eignum þessa fólks og selja því það fáist svo lítið fyrir þær. Auk þess myndi það valda algeru hruni á fasteignaverði. Dæmi frá Bandaríkjunum séu víti til að varast en þar hafi bankar tekið svo margar eignir að fasteignaverð á sumum svæðum hafi hrunið í botn. Eignirnar séu verðlausar. Ef lánveitendur fái 80% skulda sinna endurgreiddar sé það hagnaður.

Svo eru þeir sem eru í góðri stöðu og komast af án slíkrar leiðréttingar. Sigmundur taldi að þessi leiðrétting yrði til að örva neyslu síðastnefnda hópsins. Það myndi koma atvinnulífinu og fyrirtækjunum til góða. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »