Miðstjórn Frjálslynda flokksins kölluð saman

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. mbl.is/Kristinn

Boðað hefur verið til miðstjórnarfundar hjá Frjálslynda flokknum á fimmtudag þar sem ræða á stöðu flokksins að afloknum kosningum. Flokkurinn missti alla þingmenn sína í kosningunum.

Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi varaformaður og þingmaður Frjálslynda flokksins, hefur lýst þeirri skoðun, að miðstjórnin eigi að boða til landsþings flokksins í kjölfar kosninganna í ljósi þess, að flokkurinn hafi beðið algert skipsbrot í alþingiskosningum með 2,2 prósenta fylgi á landsvísu. 

Segir Magnús á heimasíðu sinni, að á landsþingi þurfi að velja að nýju í stjórnir Frjálslynda flokksins svo fólk geti sem fyrst með endurnýjuðu umboði hafið endurreisn hans sem stjórnmálahreyfingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina