Sigurður Kári í sömu sporum og Mörður Árnason var

Sigurður Kári
Sigurður Kári mbl.is/Valdís
Sigurður Kári Kristjánsson hreppti 5. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en Birgir Ármannsson varð í 6. sæti. Engu að síður er Birgir þingmaður í dag en Sigurður Kári ekki.

Ástæða þessa er sú að þeir félagar röðuðust í þriðja sætið á lista flokksins sinn í hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Sigurður Kári raðaðist í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem flokkurinn fékk aðeins tvo þingmenn, en Birgir í Reykjavíkurkjördæmi suður, þar sem flokkurinn fékk þrjá þingmenn kjörna.

Allir flokkar halda sameiginlegt prófjör fyrir bæði kjördæmin í Reykjavík, og því geta hlutirnir æxlast með þessum hætti. Skemmst er að minnast kosninganna 2007. Þá varð Mörður Árnason í 7. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík og skipaði 4. sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í áttunda sæti í prófkjörinu varð Steinunn Valdís Óskarsdóttir, og skipaði því 4. sætið í Reykjavík suður. Úrslit kosninganna urðu þau að Samfylkingin fékk þrjá menn kjörna í Reykjavík norður en fimm í Reykjavík suður. Steinunn Valdís komst á þing og einnig Ellert B. Schram en Mörður sat eftir með sárt ennið, þótt hann hefði lent 5 sætum ofar í prófkjöri en Ellert. Sigurður Kári er því í sömu sporum og Mörður var fyrir tveimur árum.

Í kosningunum nú var skiptingin jafnari hjá Samfylkingunni í Reykjavík, fjórir þingmenn í hvoru kjördæmi. Fyrstu varaþingmenn fyrir kjördæmin eru títtnefndur Mörður Árnason og Anna Pála Sverrisdóttir.

Bloggað um fréttina