Árni Johnsen segir skipulega unnið gegn sér

Árni Johnsen
Árni Johnsen

 Árni Johnsen, sem var strikaður út af 17% kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir í viðtali við Fréttir í Vestmannaeyjum, vonlaust þegar samherjar hans í kjördæminu séu að skipuleggja útstrikanir sér til höfuðs.  Hann vill breyta útstrikunarreglum og segir sjálfstæðismenn í Árborg hafa unnið óheiðarlega.

Í Fréttum, sem koma út í kvöld, kemur fram að aðrar alþingiskosningarnar í röð strika flestir yfir nafn Árna í Suðurkjördæmi, nú um 17% kjósenda en árið 2007 strikuðu 22% yfir nafn hans.

Árni segir þetta fyrst og fremst innanflokks­vandamál. „Það er auðvitað alveg skelfilegt þegar samherjar manns setja af stað heilt batterí til að strika mig út. Útstrikanir eru eðlilegur hluti kosninga út frá forsendum einstaklinga en ég veit að það var sett af stað batterí á Árborgarsvæðinu mér til höfuðs, bæði af ungliðum og eldri flokksmönnum. Þau hringdu út, sögðu fólki að kjósa Sjálf­stæðisflokkinn en strika mig út. Ef þau ætluðu ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, áttu þau samt að strika mig út. Þarna var verið að blekkja kjósendur til að ógilda atkvæði sitt sem er grafalvarlegur hlutur. Verst þykir mér þegar frambjóðendendur á listanum á Árborg­arsvæðinu taka þátt í þessu," sagði Árni.

Sjá nánar á fréttavefnum Suðurlandið

mbl.is