Margir íhuga greiðsluverkfall

mbl.is/Kristinn

„Mjög margir eru í sambandi við okkur og hafa lýst yfir áhuga á því að fara í einhvers konar greiðsluverkfall. Og sá hópur stækkar óðum,“ segir Þórður B. Sigurðsson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Samtökin ásamt Húseigendafélaginu hafa lýst yfir eindregnum stuðningi við tillögu talsmanns neytenda um neyðarlög í þágu neytenda um eignarnám fasteignaveðlána og niðurfærslu þeirra samkvæmt mati lögbundins gerðardóms. Að baki stuðningsyfirlýsingunni eru ellefu þúsund félagsmenn samtakanna tvennra. Þórður segir að stjórnvöld verði að bregðast skjótt við, þolinmæði lántakenda sé á þrotum.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, hefur kynnt ráðherrum tillögu sína en ekki fengið viðbrögð. Gísli segir að mikið liggi við. Ríkisstjórnin hafi aðeins fáeinar vikur – jafnvel aðeins fáa daga – til að grípa til aðgerða. Hann segist ekki hvetja fólk til að hætta að borga af lánum sínum en viti að fjölmargir íhugi það. Ekki síst um þessar mundir þegar frysting lána rennur út.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra segir ríkisstjórnina meðvitaða um vanda heimilanna og hversu brýnt sé að bregðast við honum sem fyrst. „Hér vinnum við öllum stundum að þessum brýnu málum. Það þarf enginn að efast um það. Við gerum okkur grein fyrir því að vinna þarf hratt og örugglega að öllum þessum málum sem framundan eru.“

Ráðherrann hefur hins vegar ekki talið rétt að fara leið framsóknarmanna, þ.e. að færa skuldir niður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert