Frjálslyndi sendi póst á kostnað Alþingis

Guðjón Arnar Kristjánsson
Guðjón Arnar Kristjánsson Halldór Sveinbjörnsson

Frjálslyndi flokkurinn sendi í síðustu viku út bréf til allra félagsmanna í Frjálslynda flokknum, um 1.700 bréf, á kostnað Alþingis þrátt fyrir að flokkurinn eigi ekki lengur þingmenn á Alþingi. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, staðfesti þetta í samtali við mbl.is og að flokkurinn hafi fengið heimild til þessa hjá skrifstofu Alþingis.

Að sögn Guðjóns Arnars mun flokkurinn ekki óska aftur eftir þessu þar sem störfum hans er lokið á Alþingi og hefur flokkurinn tæmt skrifstofur sínar í húsnæði Alþingis.

Hann segir að flokkurinn hafi óskað eftir því við skrifstofu Alþingis að fá að vita hvort þetta væri heimilt og félli undir þau bréf sem þingmenn mega senda í gegnum Alþingi en áður hafi verið send út bréf um starfsemi flokksins og málatilbúnað. Játandi svar hafi borist frá skrifstofunni og því hafi bréfið verið sent út.

Um hafi verið að ræða bréf til flokksmanna þar sem þeim var gerð grein fyrir lokastöðu flokksins á þingi og í hvaða stöðu flokkurinn væri.

Á vef Íslandspósts kemur fram að póstburðagjald bréfs innanlands er 70 krónur. Ef Alþingi myndi greiða full póstburðagjöld þá væri kostnaðurinn vegna bréfs Frjálslynda flokksins um 119 þúsund krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina