Vilja frekar Dag en Hönnu Birnu

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Ómar

Fleiri vilja Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingarinnar, sem borgarstjóra en Hönnu Birnu Kristjánsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Samfylkinguna.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2, að tæp 54% þeirra sem tóku afstöðu vildu frekar Dag en rúm 46% Hönnu Birnu en aðeins var hægt að velja á milli þeirra tveggja.

Samfylkingin lét gera könnunina á tímabilinu 18.-27.mars.
Um netkönnun var að ræða en úrtakið var 1961, handahófsvaldir úr Viðhorfshópi Capacent Gallup. Spurt var: „Hvort vilt þú frekar að Dagur B. Eggertsson eða Hanna Birna Kristjánsdóttir verði borgarstjóri á næsta kjörtímabili?"

Tilviljunarkennt var hvort þeirra var nefnt á undan í spurningunni og hvort þeirra var fyrir ofan í svarmöguleikum.

1057 tóku afstöðu og af þeim vilja 46,4% að Hanna Birna verði frekar borgarstjóri en 53.6% vilja frekar að Dagur gegni embættinu. Þegar horft er til kynja þá nýtur Dagur meira fylgis hjá bæði körlum og konum, en 57% kvenna vilja frekar að Dagur verði borgarastjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert