Þorleifur segir sig úr nefnd

Þorleifur Gunnlaugsson.
Þorleifur Gunnlaugsson.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna hefur sagt sig úr nefnd sem á að yfirfara reglur Reykjavíkurborgar um staðsetningu og afgreiðslutíma áfengisveitingastaða og um meðferð áfengis á almannafæri í borginni. Vika er þar til ný borgarstjórn verður kjörin í Reykjavík.

Í tilkynningu sem VG hefur sent á fjölmiðla kemur fram að íbúar miðborgar voru kallaðir til fundar í ráðhúsið í fyrradag. Fundarefnið var opnunartími veitingastaða og ástandið í miðbænum og hefði getað verið fyrirtaks dæmi um íbúalýðræði en reyndist verða andstæða þess þegar uppi var staðið.

„Ég hef nú ákveðið að segja mig úr nefndinni. „Íbúafundurinn“ er kornið sem fyllti mælinn. Ég tel mig ekki geta tekið ábyrgð á þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið af meirihluta nefndarinnar. Þegar upp er staðið er það augljóst að þessi vegferð er farin í „vinnum saman“ blekkingaleik borgarstjóra því hér er ekki um eina dæmið að ræða þar sem nefnd á vegu borgarráðs er að skila af sér „daginn fyrir kosningar“. Ég mun hinsvegar leggja fram mínar tillögur á borgarráðsfundi á fimmtudaginn kemur.  

Upphaf þessa máls eru ítrekaðar kvartanir íbúa á svæðinu, sérstaklega á og við Laugarveg vegna vaxandi ónæðis af skemmtistöðum sem staðfest hefur verið, bæði af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Síðastliðið vor var þetta farið að keyra um þverbak og bréf, bæði frá íbúum og lögreglu fóru að berast inn í borgarráð.

Þann 14. maí 2009 var svo skipaður, af borgarráði, fimm manna stýrihópur sem „yfirfari reglur Reykjavíkurborgar um staðsetningu og afgreiðslutíma áfengisveitingastaða og um meðferð áfengis á almannafæri í borginni, og geri tillögur að breytingum ef þörf er talin á.“

Í hópnum eru, Júlíus Vífill Ingvarsson (formaður), Áslaug Friðriksdóttir, Guðlaugur Sverrisson og Oddný Sturludóttir og þangað til núna, undirritaður. Hópurinn átti að skila niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. október 2009.

Á fundinum lagði ég fram tillögu sem síðan var vísað til hópsins, sem hljóðar svo: „Í ljósi bréfs Íbúasamtaka miðborgar um vínveitingastaði á svæðinu leggur fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði til að stýrihópi vegna reglna um staðsetningu og afgreiðslutíma vínveitingastaða verði falið að halda borgarafund með íbúum miðborgarinnar um málið.“

Hópurinn kallaði fjölmarga til fundar en hafði ekki tekið samtalið við íbúana sem þó var eina tillagan sem lá fyrir frá borgarráði. Þegar komið var fram á  haust fór mig að gruna að ég væri kominn í enn einn „vinnum saman“ hóp meirihlutans sem ætlaði ekki að gera neitt. Þegar komið var fram í nóvember hætti formaðurinn okkar (Júlíus Vífill) að kalla saman fundi.

Það var svo 28. apríl að íbúasamtök miðborgar sendu opið bréf til borgarstjórans í Reykjavík, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Þar var það tíundað að íbúasamtökin sendu frá sér samþykkt fyrir ári síðan þar sem þess var krafist að: „borgarfulltrúar hlutist til um að sú skerðing á umhverfisgæðum sem íbúar miðborgarinnar hafa mátt þola á undanförnum árum verði rædd í borgarstjórn og úrlausna leitað.“ Og „Það er því krafa okkar að lögum og reglugerðum sem í gildi eru sé fylgt þ.á.m. 4.gr. lögreglusamþykktar. Framkvæmd þess snýr að lögreglu.Opnunartími er hins vegar á valdi borgarstjórnar. Fyrir ári síðan, væntanlega vegna kröfu okkar um úrbætur, var skipaður stýrihópur um endurskoðun á staðsetningu og afgreiðslutíma áfengisveitingastaða í miðborg Reykjavíkur. Þess var vænst að tillögur um breytingar sæju dagsins ljós með haustinu en hafa enn ekki sést. Íbúasamtökin lögðu hins vegar sínar tillögur dagsettar 26.11.2009 og íbúasamtökin segja „Það er því ítrekuð krafa okkar um að borgarstjórn taki á málinu og leiti úrbóta.“

Ég hafði svo frumkvæði að því að fá málið tekið á dagsskrá borgarráðsfundar 6. maí sl. Í fundargerðinni segir: "Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu: Í ljósi fjölmiðlaumræðu er lagt til að íbúar miðborgar verði boðaðir á fund með stýrihópi vegna reglna um staðsetningu og afgreiðslutíma vínveitingastaða. Fundurinn verði í samráði við hverfisráð og íbúasamtök svæðisins í Ráðhúsi Reykjavíkur eigi síðar en 20. maí.“
Tillagan var samþykkt einróma og þar með hélt ég að langþráðu takmarki væri náð sem þó var ekki þrautalaust því daginn áður hélt formaður hópsins okkar (Júlíus Vífill) fund eftir sex mánaða fundarstopp. Á þeim fundi bað ég um að tillagan um íbúafundinn sem legið hafði hjá formanni í ár yrði tekin á dagsskrá en Júlíus neitaði því," skrifar Þorleifur í bréfi sem sent var á fjölmiðla í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert