Besti flokkurinn stærstur

Besti flokkurinn er stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur eftir borgarstjórnarkosningarnar á laugardag en hann fékk 6 borgarfulltrúa kjörna. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 5 borgarfulltrúa, Samfylkingin 3 og Vinstri grænir 1. 

Mikið var um útstrikanir og endurröðun á lista en alls var 8316 kjörseðlum breytt af alls 63.019 atkvæðum sem greidd voru. Kristín Edwald, formaður yfirkjörstjórnar, sagði við mbl.is, að þessi atkvæði hefðu engu breytt þótt þau hefðu verið talin með öðrum þegar fyrri tölur voru birtar í kvöld og nótt.

Lokatölur í Reykjavík voru birtar laust fyrir klukkan 4 í nótt. Samkvæmt þeim fékk Besti flokkurinn 20.666 atkvæði, 34,7% og 6 borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkur fékk 20006 atkvæði, 33,6% og 5 fulltrúa, tapaði tveimur fulltrúum. Samfylkingin fékk 11.344 atkvæði, 19,1% og 3 menn, tapaði einum fulltrúa. Vinstrihreyfingin- grænt framboð fékk 4255 atkvæði, 7,1% og 1 fulltrúa. 

Framsóknarflokkurinn 1629 atkvæði, 2,7% og engan mann, missti sinn borgarfulltrúa. Reykjavíkurframboðið fékk 681 atkvæði, 1,1%, Framboð um heiðarleika fékk 668 atkvæði, 1,1% og Frjálslyndi flokkurinn 274 atkvæði og 0,5%. Ólafur F. Magnússon, leiðtogi Framboðs um heiðarleika, féll úr borgarstjórn en hann var fulltrúi F-lista á síðasta kjörtímabili.

Auðir seðlar voru 3238 og ógildir 258.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert