Gagnrýna afgreiðslu allsherjarnefndar

Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna afgreiðslu frumvarps til laga um um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda út úr allsherjarnefnd í morgun. Telja þeir að stjórnmálamönnum sé um megn að læra eitthvað af hruninu.

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda var afgreitt úr allsherjarnefnd Alþingis í dag með stuðningi þingmanna fjórflokksins og óháðs þingmanns, Þráins Bertelssonar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að framlög einstaklinga til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka megi áfram vera nafnlaus og að fyrirtækjum sé áfram heimilt að styrkja stjórnmálamenn og -flokka, að því er segir í tilkynningu frá þingmönnum Hreyfingarinnar.
 
„Frumvarpið hlaut ekki efnislega umfjöllun í nefndinni og ekki var orðið við beiðnum um að gestir kæmu á fund nefndarinnar vegna málsins. Frumvarpið gengur nú til annarrar umræðu á Alþingi og fyrirhugað er að það verði að lögum á septemberþinginu. Vinnulag við þetta frumvarp er skýrt dæmi um að Alþingi ætlar ekki að taka tillit til vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis og þeirra niðurstaðna sem fram koma í skýrslu hennar.
 
Áttunda bindi skýrslu RNA ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“. Í kafla II. 3[1] segir:  „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna“.[2] Enn fremur segir í niðurlagi kaflans þar sem ályktanir eru dregnar og komið er inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni:  „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.”[3]
 
Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, lofaði mjög skýrslu Rannsóknarnefndarinnar við útkomu hennar og þingmannanefnd sem á að fjalla um skýrsluna, niðurstöður hennar og gera tillögur að viðbrögðum Alþingis, hefur enn ekki lokið vinnu sinni. Því skýtur skökku við að Allsherjarnefnd og Alþingi skuli flýta sér svo mjög með þetta mál en þess má geta að það er flutt sameiginlega af öllum formönnum fjórflokksins.
 
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar og áheyrnarfulltrúi í nefndinni, gagnrýndi málið harðlega og segir það „skýrt dæmi um hvernig rótgróin samtrygging flokkakerfisins kemur í veg fyrir að samfélagið njóti góðs af niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis og að gagnsætt, óspillt lýðræði virðist ekki vera á dagskrá“.
 
Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því umhverfi sem var til staðar fyrir hrun viðhaldið.  Líkt og raun ber vitni litast slíkt umhverfi um of af samspili peninga, viðskiptalífs og stjórnmála, þeirri eitruðu blöndu spillingar sem leiddi til hrunsins.  Að sama skapi mun skefjalaus sjálftaka úr almannasjóðum halda áfram og jafnræðissjónarmiðum við úthlutun opinbers fjár til stjórnmálahreyfinga ekki verða gætt.
 
Allir nefndarmenn Allsherjarnefndar styðja þetta frumvarp. Þau eru  Róbert Marshall (form.), Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir, Samfylkingu. Árni Þór Sigurðsson (varaform.) og Ögmundur Jónasson, VG. Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal, Sjálfstæðisflokki, Vigdís Hauksdóttir Framsóknarflokki og Þráinn Bertelsson óháður þingmaður," segir í tilkynningu sem þingmenn Hreyfingarinnar, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir, rita undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina