Um 40 framboð til stjórnlagaþings

Kjörkassar í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Kjörkassar í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Tilkynningar um framboð til stjórnlagaþings hafa orðið tíðari eftir því sem líður á framboðsfrestinn. Í gær höfðu um 40 manns sent framboðstilkynningu til landskjörstjórnar.

Von er á að þeim fjölgi töluvert fram til hádegis á mánudag, 18. október, en þá rennur framboðsfrestur út.

Landskjörstjórn mun ekki greina frá því hverjir hafa boðið sig fram fyrr en eftir að framboðsfrestur rennur út. Þórhallur Vilhjálmsson, ritari landskjörstjórnar, segir að tilkynningum um framboð hafi fjölgað mjög hratt og miðað við fjölda fyrirspurna sem borist hefðu landkjörstjórn mætti búast við að þeim ætti töluvert eftir að fjölga.

Framboðsgögnum skal skila til landskjörstjórnar fyrir kl. 12 á mánudag.


Bloggað um fréttina