Ætluðu að fá sér „þarmastíflulummu“

Myndin af Ástþóri og Sverri sem gengur um á samfélagsvefjum.
Myndin af Ástþóri og Sverri sem gengur um á samfélagsvefjum. mbl.is

„Ekki sá ég áfengi á neinum manni er ég gekk niður laugarveginn með hendur í vösum í gær,“ segir Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi í bréfi til fjölmiðla en á samfélagsvefjum gengur mynd af Ástþóri og Sverri Stormsker og þeir vændir um að safna undirskriftum hjá ölvuðum unglingum.

Í bréfinu má bæði finna útskýringu Ástþórs og Sverris á umræddu atviki. „Við Ástþór vorum einfaldlega að koma úr jarðarför góðvinar míns Geira gullputta og ætluðum að fá okkur þarmastíflulummu á veitingastaðnum Ítalíu,“ segir Sverrir og einnig að framhaldsskólanemar hafi viljað fá myndir af sér með Ástþóri.

Þá segir Sverrir að kosningastjóri annars forsetaframbjóðanda hafi dylgjað um það, að þeir hefðu verið að safna meðmælendum. Það sé hins vegar fásinna. „Þeir hefðu gjarnan mátt velja sér annan dag til þess en útfarardag vinar okkar.“

Ennfremur segir í hluta Ástþórs að ef börn og unglingar séu undir áhrifum áfengis í miðbæ Reykjavíkur um miðjan dag sé það alvarlegt mál. Vímuefnaneysla og vaxandi ofbeldi meðal unglinga sé áhyggjuefni og vandamál sem þjóðfélagið þurfi að leysa.

Bæta má við, að ein þeirra stúlkna sem kemur fyrir á myndinni staðfesti í samtali við mbl.is orð þeirra Ástþórs og Sverris.

mbl.is

Bloggað um fréttina