Hannes yrði ekki róttækur forseti

Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi.
Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi.

„Ef ég verð forseti verð ég ekki ekki róttækur forseti. Ég sé hættuna sem liggur í því að forsetinn sé mjög pólitískur,“ sagði Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

Spurður hversu pólitískur hann yrði sem forseti svaraði hann að hann vildi sjá minni pólitík í embættinu en hefði verið í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar. „Ég er íhaldssamara forsetaefni en margir aðrir, mér finnst ekki rétt að blanda pólitík mikið inn í þetta. Það er komin bullandi pólitík í þetta um leið og neitunarvaldinu er beitt. Neitunarvaldið er síðasta úrræðið, alger öryggisventill og það þarf að fara varlega í að beita því.“

Hvað varðar að tala máli íslenskra fyrirtækja eða hagsmunaaðila erlendis sagði Hannes mikilvægt að tala máli atvinnulífsins, menningarinnar og sögunnar. „Ég veit ekki hversu langt forseti á að ganga í því að tala máli einstakra fyrirtækja, þá vil ég endilega fá að sjá siðareglur forsetaembættisins hvað það varðar. Það væri skynsamlegt að útbúa siðareglur svo allir viti við hverju sé að búast hjá embættinu.“

Hannes var spurður hvort hann væri tilbúinn að lýsa skoðun sinni á mestu hitamálunum, t.a.m. aðild að Evrópusambandinu, nýju kvótakerfi og drögum að nýrri stjórnarskrá, og hvort honum fyndist forseti yfirhöfuð þurfa að gefa upp skoðun sína á slíkum málum. „Forsetaembættið er mjög persónulegt. Þeir sem eru forsetar hingað til hafa sett sín fingraför á það. Við eigum að lýsa okkar persónulegu skoðun á málinu, það er mjög mikilvægt að fjölmiðlar hleypi okkur ekki í gegnum viðtöl án þess að láta okkur svara spurningum.“

Hann bætti við að honum litist vel á drög að nýrri stjórnarskrá en væri aftur á móti mótfallinn aðild að ESB. Spurður hvort hann myndi sem forseti beita sér gegn aðild svaraði hann því til að hann myndi ekki beita sér öðruvísi en að leggja málið í dóm þjóðarinnar.

mbl.is