Ari Trausti líka með í kappræðum

Ari Trausti Guðmundsson
Ari Trausti Guðmundsson Ómar Óskarsson

Forsetaframbjóðandinn Ari Trausti Guðmundsson hefur ákveðið að taka þátt í kappræðum Stöðvar 2 sem haldnar verða annað kvöld. Ari Trausti lá undir feldi í dag en tilkynnti ákvörðun sína á samskiptavefnum Facebook í kvöld.

Ari Trausti var fyrsti forsetaframbjóðandinn sem gagnrýndi Stöð 2 og harmaði röng vinnubrögð fjölmiðilsins, en til stóð að kappræðurnar stæðu aðeins á milli Ólafs Ragnars Grímssonar og Þóru Arnórsdóttur. Sökum þess að Þóra ákvað að taka ekki þátt nema allir frambjóðendur fengju boð um að taka þátt var fyrirkomulaginu breytt.

„Í ljósi þess að nú fá allir frambjóðendur að taka þátt vill Ari Trausti gefa kjósendum tækifæri til að kynnast sér og áherslum sínum í beinum samanburði við aðra frambjóðendur, líkt og verður hjá fleiri fjölmiðlum í júní, en samkvæmt skilaboðum Stöðvar 2 hafa allir frambjóðendur staðfest þátttöku,“ segir í tilkynningu frá framboði Ara Trausta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert