Ósammála um 26. greinina

Þóra Arnórsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Ólafur Ragnar Grímsson gagnrýndi hugmyndir Þóru Arnórsdóttur um að beita málskotsréttinum þegar þingið afgreiddi stór og umdeild mál með minnsta mögulega þingmeirihluta. Með þessu væri verið að gera forsetann mun pólitískari en hann hefði verið.

„Ég er algerlega ósammála því sem Þóra og Hannes [Bjarnason] voru að segja að 26. greinin sé neyðarhemill. Það er hann alls ekki, eins og Andrea [Ólafsdóttir] sagði þá felur þessi grein í sér lýðræðislegan rétt fólksins. Það sýnir bara skort á skilningi hvað snertir lýðræðislegan kjarna stjórnarskrárinnar og hvernig hún er byggð upp, að menn líti á þennan rétt almennings í landinu til að ljúka málum, ef fólk er ósátt við þingið.

Svo er ég líka ósammála þessari kenningu sem Þóra setti fyrst fram í grein í Morgunblaðinu, að það komi  til álita að beita málskotsréttinum ef mál eru afgreidd með naumum meirihluta á Alþingi og forsetinn eigi þess vegna að fara að blanda sér ótt og títt í mál með naumum meirihluta.“

Ólafur sagði algengt að stór mál á Alþingi væru afgreidd með naumum meirihluta. „Ef þessari nýju kenningu Þóru væri fylgt eftir þá tel ég að forsetinn væri kominn á kaf í deilur á þinginu, sífellt að meta stöðu mála þar. Þetta myndi gera forsetaembættið mun pólitískara, sem er þversögn, en nokkrum forseta hefur dottið í hug fram að þessu.“

Þóra sagði að Ólafur Ragnar hefði virkjað málskotsréttinn og þar með hefði þjóðin vaknað til vitundar um að þessi leið væri fær. Hún sagði að meiri líkur væru á að deilur sköpuðust í samfélaginu þegar þingið afgreiddi stór mál með minnsta mögulega mun. Forsetinn yrði í hvert og eitt sinn að íhuga hvort hann ætti að veita þjóðinni möguleika á að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þannig væri staðið að málum.

Þóra gagnrýndi þingið fyrir að þvinga stór og umdeild mál í gegn með minnsta meirihluta. Hún nefndi breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld í þessu sambandi. Þingið ætti að leita leiða til að afgreiða mál í meira samkomulagi en nú væri gert.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina