Ólafur hlaut 52,78% atkvæða

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ragnar Grímsson fékk samtals 52,78% atkvæða á landsvísu samkvæmt lokatölum sem lágu fyrir um klukkan hálfátta í morgun samkvæmt fréttavef Ríkisútvarpsins. Þóra Arnórsdóttir fékk 33,16% atkvæða og Ari Trausti Guðmundsson 8,64%.

Herdís Þorgeirsdóttir varð fjórða í röðinni með 2,63% atkvæða. Þá kom Andrea J. Ólafsdóttir með 1,8% og loks Hannes Bjarnason með rétt um eitt prósent eða 0,98%. Heildarkjörsókn var 69%.

Ólafur Ragnar er því réttkjörinn forseti Íslands til næstu fjögurra ára en þetta verður fimmta kjörtímabil hans. Til þessa hafa forsetar Íslands ekki setið lengur en fjögur kjörtímabil en bæði Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir sátu á forsetastóli í 16 ár. Ólafur lýsti því yfir í gærkvöldi að þetta yrði hans síðasta kjörtímabil.

Ljóst er að niðurstaðan er mjög í anda þess sem síðustu skoðanakannanir bentu til rétt fyrir kosningar og þá ekki síst síðasta könnun Capacent Gallup. Nokkrar vangaveltur voru um það á kjördag hvort minni kjörsókn en oftast áður kynni að setja strik í reikninginn en ljóst er að sú hefur ekki orðið raunin varðandi heildarniðurstöðuna.

Frétt mbl.is: Ólafur Ragnar ótvíræður sigurvegari

mbl.is