Telja framkvæmdina mannréttindabrot

Fatlaðir fengu ekki að velja eigin aðstoðarmenn.
Fatlaðir fengu ekki að velja eigin aðstoðarmenn. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er engin önnur leið í stöðunni en að kæra. Fyrir stjórnlagaþingskosningarnar var endurbótum lofað, þá var Blindrafélagið fremst í baráttunni og þá voru kosningarnar mjög flóknar. Niðurstaðan var sú að gerð var undantekning í þeim kosningum og blindir og hreyfihamlaðir fengu að kjósa með sínum aðstoðarmönnum,“ segir Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands en bandalagið undirbýr nú kæru til Hæstaréttar vegna framkvæmdar forsetakjörsins sem fram fór 30. júní síðastliðinn. Hvorki var búið að breyta kosningalögunum né veita undanþágu áður en kjörið fór fram.

„Við teljum að núverandi fyrirkomulag, sem er þannig að fatlaðir þurfa að velja einhvern úr kjörstjórninni, sem er í raun hluti af stjórnvaldinu, sé ekki leynileg kosning,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, sem einnig gilda um forsetakjör, mega fulltrúar kjörstjórnar einir veita aðstoð þeim sem þurfa.

Fatlaðir krefjast þess hins vegar að fá að velja eigin aðstoðarmenn þegar þeir greiða atkvæði í leynilegum kosningum. Guðmundur segir að umrædd ákvæði kosningalaganna brjóti mannréttindi og stangist á við stjórnarskránna, Mannréttindasáttmála Evrópu og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann segir að fötluðum hafi verið lofað því að kosningalöggjöfinni yrði breytt eftir stjórnlagaþingskosningarnar. Málið hafi þó aldrei komist að á síðustu dögum þingsins.

„Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra baðst opinberlega afsökunar á því hvernig fór og hann er nú meiri maður fyrir það. Hins vegar er afsökun ekki nóg,“ segir Guðmundur.

„Það er ekki alveg ljóst hverjir verða aðilar að málinu. Hugsanlega tveir til þrír, einn hreyfihamlaður og einn blindur en hugsanlega fleiri. Öryrkjabandalagið verður svo aðili að málinu sem bakhjarl,“ segir Guðmundur.

Á hverju byggist kæran?

„Það sem við leggjum til grundvallar er í fyrsta lagi 5. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að forseti skuli kosinn leynilegrar kosningu. Þá segir í 3. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur verið lögfestur á Íslandi, að atkvæðagreiðsla skuli vera leynileg og fara fram við aðstæður sem tryggi það að álit einstaklinga komi í ljós með frjálsum hætti,“ segir Guðmundur.

Kæran mun einnig byggja á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var undirritaður af Íslands hálfu árið 2007. Þótt samningurinn hafi ekki verið fullgiltur, né lögfestur eins og Mannréttindasáttmáli Evrópu, hafa stjórnvöld með undirrituninni skuldbundið sig til að vinna ekki gegn markmiðum samningsins. Dómstólar eru ekki bundnir af samningnum en er þó heimilt að líta til hans við ákvörðunartöku. Þess má geta að Danir og Svíar hafa löggilt samninginn og stefnt er að því hér á landi innan fárra ára.

Skýr ákvæði í nýlegum sáttmála

Í a-lið 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna segir að aðildarríki skuli „tryggja að fötluðum sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosnir, meðal annars með því: ii. að vernda rétt fatlaðra til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án þvingana með hótunum og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með virkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á, iii.að fatlaðir geti látið vilja sinn óþvingað í ljós sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk fatlaðra, að þeir, njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði,“.

Var ekki hægt að breyta fyrirkomulagi án lagabreytingar

Í yfirlýsingu sem Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sendi frá sér í síðustu viku kemur fram að ekki sé unnt að breyta fyrirkomulagi kosningalaganna án lagabreytingar. Í yfirlýsingunni segir meðal annars:

„Ljóst er að það er ekki á færi ráðherra að víkja þeim lagaákvæðum til hliðar. Slíkt gæti valdið ógildingu kosninganna. Af þessum sökum er því miður ekki unnt að verða við kröfum um að fatlað fólk sem þarf aðstoðar við í kjörklefa fái þá aðstoð á annan hátt en skilgreint er í lögum. Í haust mun ég þegar í þingbyrjun leggja fram frumvarp þessu til breytingar og hafa til hliðsjónar breytingar sem Danir og Svíar hafa gert á sínum kosningalögum til samræmis við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þeir einir Norðurlandaþjóðanna hafa fullgilt samninginn.“


Sjá einnig:

Freyja kaus með sínum hætti

Ögmundur biður fatlaða afsökunar




Guðmundur Magnússon, formaður Öyrkjabandalags Íslands telur kosningalögin brjóta mannréttindi.
Guðmundur Magnússon, formaður Öyrkjabandalags Íslands telur kosningalögin brjóta mannréttindi.
Fatlaðir einstaklingar hyggjast kæra framkvæmd forsetakosninganna.
Fatlaðir einstaklingar hyggjast kæra framkvæmd forsetakosninganna. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert