Ólafur Þór vill leiða lista

Ólafur Þór Gunnarsson
Ólafur Þór Gunnarsson

Ólafur Þór Gunnarsson hyggst gefa kost á sér til að leiða lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi í kosningum næsta vor.

Ólafur hefur verið félagi í VG frá stofnun flokksins og starfað að bæjarmálum í Kópavogi frá árinu 2002, frá 2006 sem bæjarfulltrúi. Þá hefur Ólafur verið varaþingmaður VG í Suðvesturkjördæmi frá síðustu alþingiskosningum og hefur tekið sæti á þingi í nokkur skipti.

Í tilkynningu frá Ólafi segir að hann hafi fundið fyrir miklum stuðningi til þess að taka að sér þetta verkefni. „Það er mikilvægt að þeir sem bjóða sig fram í kjördæminu þekki vel til hagsmunamála byggðarlaganna á svæðinu. Ég hef verið bæjarfulltrúi í Kópavogi í mörg ár, uppalinn í Kópavogi, og gef því kost á mér til að leiða lista VG í kjördæminu.“

Hann segir að sín helstu baráttumál hafi verið velferðarmál með áherslu á heilbrigðismál og málefni aldraðra og sveitarstjórnarmál. Þá hafi hann beitt sér fyrir stofnun björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og nokkrum sinnum lagt fram mál á Alþingi þar um auk annarra mála s.s. lagafrumvarp um einbýli á hjúkrunarheimilum, þingsályktunartillögu um að taka áfengi og tóbak út úr vísitölu, tillögu um innlenda framleiðslu á innrennslisvökvum, tillögu um heimild sveitarfélaga til að leggja á umhverfisgjöld, tillögu um að heimila Lánasjóði íslenskra námsmanna að veita sérstaka aðstoð til þeirra sem hefja nám í greinum sem gagnstætt kyn sækir fremur í og fleiri mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert