Úrslit leysa ekki togstreitu innan VG

„Niðurstöður flokksvalsins endurspegla þau átök sem hafa verið innan VG ...
„Niðurstöður flokksvalsins endurspegla þau átök sem hafa verið innan VG , en Ögmundur hefur verið mjög gagnrýninn á Evrópusambandsaðildina og á móti Icesave,“ segir Stefanía Óskarsdóttir. mbl.is/Eggert

„Af þeim 487 sem kusu eru heldur fleiri sem kjósa Ögmund en Ólaf Þór Gunnarsson. Það sýnir ákveðna flokkadrætti, nú er Ögmundur einn af stofnendum Vinstri grænna og hefur alltaf verið forystumaður í flokknum. Guðfríður Lilja gefur ekki kost á sér, Ólafur fær ágætis kosningu en Ögmundur hefur betur,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur um niðurstöður forvals Vinstri grænna í Kraganum. Ögmundur Jónasson hlaut 261 atkvæði sem tryggði honum fyrsta sæti á listanum en Ólafur Þór hafnaði í öðru sæti með 234 atkvæði. Því skildu 27 atkvæði þá að.

„Niðurstaðan endurspeglar þau átök sem hafa verið í flokknum, en Ögmundur hefur verið sem fulltrúi síns hóps mjög gagnrýninn á Evrópusambandsaðildina og á móti Icesave auk þess sem hann var settur út úr ríkisstjórn á tímabili,“segir Stefanía. „Um er að ræða tvær nánast jafnsterkar fylkingar innan flokksins og ljóst er að þessar niðurstöður leysa ekki togstreituna þar á milli,“ segir Stefanía. „Hefði Ögmundur tapað hefðu líkurnar á framboði þeirra sem eru skeptískir á Steingrím aukist,“ segir Stefanía. 

Vanhugsað framboð Björns Vals

Í Reykjavík komu niðurstöður prófkjörs VG fáum á óvart að sögn Stefaníu. „Þar verða í rauninni engar breytingar, staðan er nokkurn veginn óbreytt. Kannanir hafa sýnt að Katrín Jakobsdóttir nýtur mikils trausts í sínum störfum og sennilega sá ráðherra sem fólk treystir hvað best. Það er því alveg eftir bókinni að hún, Svandís Svavarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson nái efstu sætunum,“ segir Stefanía. 

Að hennar sögn var líkast til um vanhugsaða ákvörðun að ræða hjá Birni Val Gíslasyni þegar hann bauð sig fram í Reykjavíkurkjördæmi. „Hann ákveður að sækja fram, sýnilega með stuttum fyrirvara og án undirbúnings því hann útskýrir tapið með því að hann eigi sér einfaldlega ekki stuðningsmenn í þessu kjördæmi. Þetta virðist því hafa verið svolítið vanhugsað hjá honum að fara fram hér í Reykjavík þar sem hann á ekki tryggðan stuðning,“ segir Stefanía. 


„Kannanir hafa sýnt að Katrín Jakobsdóttir nýtur mikils trausts í ...
„Kannanir hafa sýnt að Katrín Jakobsdóttir nýtur mikils trausts í sínum störfum og sennilega sá ráðherra sem fólk treystir hvað best,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
mbl.is