„Iðnaður hluti af fjölbreytni“

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. Eggert Jóhannesson

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur aldrei lýst sig mótfallna öllum iðnaðarframkvæmdum, þó svo flokkurinn hafi áður andæft stóriðjuframkvæmdum. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, á Alþingi í dag vegna fyrirspurnar um uppbyggingu á Bakka við Húsavík.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði í fyrirspurnartíma Katrínu út í það hvort hún sé sammála því að fagna beri uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka. Katrín svaraði því til að uppbyggingin sé á svæði sem sé í nýtingaflokki samkvæmt rammaáætlun, skapi tiltölulega mikinn arð og fleiri störf en álver.  Hins vegar eigi eftir að fara fram umhverfismat og mikilvægt sé að það fari fram með faglegum hætti.  Þá megi gera ráð fyrir einhverri losun gróðurhúsalofttegunda og þá sé farsælast að kaup heimildir fyrir þeirri losun. „Fjölbreytnin skiptir máli og iðnaður er hluti af þeirri fjölbreytni,“ sagði Katrín svo.

Sigmundur Davíð sagði þá ánægjulegt að Katrín taki undir að æskilegt sé að byggja upp iðnað á Íslandi og að VG leggist ekki gegn iðnaði almennt, nema framleiðslu áls. Það sé undarlegt þar sem álframleiðsla sé umhverfisvæn með endurnýjanlegri orku, en ekki olíu og kolum. Því ætti hún að fagna slíkri framleiðslu.

Katrín sagði mikilvægt að skoða hvert tilfelli fyrir sig og þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í. Eðlilegt sé að taka tillit til margra þátta og ræða málin. Ekki eigi að túlka svar hennar sem svo að fyrst núna sé VG að taka iðnað í sátt.

2,6 milljarða skuldbinding ríkisins

Fleiri ræddu fyrirhugaðar framkvæmdir og spurði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, út í hvaða framkvæmdir séu fyrirhugaðar í vegna kísilversins á Bakka, hver skuldbinding ríkisins sé og hvort hún nemi 2,6 milljörðum króna eins og greint hefur verið frá.

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra sagði líklegt að talan yrði ekki fjarri lagi. Byggja þurfi upp samgöngumannvirki og framkvæmdir í kringum iðnaðarlóðir sem legni hafi legið fyrir að þurfi að koma til svo hægt sé að byggja upp framtíðariðnaðarsvæði. Ekki sé þó um fjárveitingar að ræða heldur víkjandi lán og engar fjárfestingar komi til fyrr en fullvíst sé að af framkvæmdum verði.

Hins vegar sé von á tveimur frumvörpum vegna málsins á næstu sólarhringum og þau eigi að svara öllum spurningum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert