Vilja stofna Landsbyggðarflokk

Merki Landsbyggðarflokksins.
Merki Landsbyggðarflokksins.

„Svo virðist sem gömlu og nýju flokkarnir ætli málefnum landsbyggðarinnar ekki mikið pláss í stefnuskrám sínum fyrir næstu kosningar - ef þá nokkuð. Kannski ekki að furða hjá flokkum sem oftast eiga uppruna sinn og lögheimili á höfuðborgarsvæðinu.“

Þetta segir meðal annars í fréttatilkynningu frá undirbúningshópi að stofnun Landsbyggðarflokksins sem setja á hagsmuni landsbyggðarinnar í forgrunn en ætlunin er að bjóða fram í landsbyggðarkjördæmunum þremur fyrir þingkosningarnar í vor. Þó er tekið fram að framhaldið ráðist af undirtektum. Stofnfundur flokksins verður haldinn næstkomandi laugardag 23. febrúar.

„Markmiðið er að Landsbyggðarflokkurinn verði einskonar byggðabandalag, grasrótarhreyfing og hagsmunasamtök almennings á landsbyggðinni sem vill skapa sér betri lífsskilyrði og njóta jafnræðis á við aðra landsmenn,“ segir í tilkynningunni og ennfremur að þar eigi heima fólk „sem hefur ekki þolinmæði til að bíða lengur eftir því að stjórnmálaflokkarnir móti sér alvörustefnu í byggðamálum.“

Fyrir undirbúningshópnum fer Magnús Hávarðarson, tölvu- og kerfisfræðingur á Ísafirði, en heimasíða Landsbyggðarflokksins er á slóðinni www.landsbyggdin.is

mbl.is