Sammála um stjórnarskrármálið

mbl.is / Hjörtur

Formenn Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar eru sammála um að stjórnarskrármálið verði ekki klárað á þessu þingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir flokk sinn oft hafa bjargað stjórninni „upp úr pytti“ í málinu.

Þeir Sigmundur Davíð og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar ræddu m.a. niðurstöður skoðanakannanna, Evrópumál, skattamál og stjórnarskrármálið í þætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi, á Bylgjunni í morgun.

„Þessar skoðanakannanir sýna að það er mikið rót á fólki, fólk er að máta sig við marga flokka,“ sagði Árni Páll, spurður um viðbrögð við dalandi fylgi flokksins.

„Ég held að okkar leið eigi erindi við þjóðina, við erum ekki í því að loka leiðum fyrirfram, því að þjóð í flókinni stöðu þarf á öllum leiðum að halda,“ sagði Árni Páll og sagðist telja að fólk myndi kjósa út frá lífsafkomu sinni í komandi þingkosningum.

„Þetta eru bara kannanir, en þetta er ánægjulegt í aðdraganda kosninga,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins inntur eftir viðbrögðum við skoðanakönnunum, sem hafa sýnt gott gengi Framsóknar. „Við verðum í þeirri stöðu að við getum breytt mjög miklu eftir kosningar. Ef við getum gert það sem þarf, þá er engin ástæða til annars en að vera mjög bjartsýnn á framtíð Íslands.“

Björguðu stjórninni „úr pytti“

Formennirnir voru sammála um að stjórnarskrármálið verði ekki klárað á þessu þingi. Sigmundur Davíð var á því að langt væri síðan sú staða varð ljós, 

Hann sagði Framsóknarflokkinn hvað eftir annað hafa bjargað ríkisstjórninni „úr þeim pytti “sem hún væri stödd í vegna stjórnarskrármálsins. Hann sagði Framsóknarflokkinn hafa lagt áherslu á að forgangsraða í málinu, klára brýnustu atriðin og nefndi þar ákvæði um auðlindir og beint lýðræði.

„En menn hafa ekki verið tilbúnir til að fallast á það, þó að allir hafi vitað að það væri ekki hægt að klára þetta, af ótta við Hreyfinguna og að fá vantrauststillögu frá henni,“ sagði Sigmundur Davíð.

Árni Páll var ekki sammála Sigmundi Davíð um að langt væri síðan ljóst var að málið yrði ekki klárað á yfirstandandi þingi. Hann sagði að mikilvæg vinna hefði verið unnin í málinu undanfarna daga, en engin leið væri til að klára það í heild á þeim stutta tíma sem eftir væri af þingi.

„Málið gæti verið talað til dauðs í málþófi þingsins, ég legg áherslu á að bjarga ferlinu. Meirihlutinn náði á föstudaginn að koma fram með heildstæða stjórnarskrá, núna vita menn að þetta er ekki för án fyrirheits, sagði Árni Páll.

Spurður um gjaldmiðilsmál sagði Sigmundur Davíð að menn þyrftu að gera sér grein fyrir því að við myndum vera með krónuna sem gjaldmiðil, með sínum kostum og göllum, næstu árin. Það hefðu flestir viðurkennt. „Kosturinn við að viðurkenna veruleikann er að menn geta þá farið að vinna að því saman að styrkja stöðu krónunnar þannig að hægt sé síðar að taka ákvörðun um framtíðarskipan gjaldmiðla. Við leysum þetta ekki með því að vega stöðugt að krónunni eða reka kosningabaráttu um eitthvað sem gerist kannski eftir kosningar 2021,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Gamalt kaldastríðstal“

Árni Páll sagði að „gömlu kerfisflokkarnir“ vilji halda í  krónuna sem gjaldmiðil til að rýra kjör almennings. Hann sagði afnám verðtryggingu enga lausn. „Vandinn er sá að íslenska krónan er sú eining sem hefur rýrnað. Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum finnst það sniðug hagfræði að rýra laun almennings með því að halda í krónuna,“ sagði Árni Páll. „Við fáum ekki laun í sama gjaldmiðli og við skuldum í og það veikir stöðu okkar.“

Sigmundur Davíð sagði Árna Pál dottinn í „gamalt kaldastríðstal“ um kerfisflokka sem vildu rýra kjör almennings og nefndi dæmi um slæma stöðu margra Evruríkja.

Árni Páll sagði þessa lýsingu Sigmundar á stöðu þessara Evrópuríkja ekki standast skoðun og spurði hann hvernig hann hygðist afnema verðtrygginguna, eins og Framsóknarflokkurinn hefur sagst ætla að gera.

Telur að breyta þurfi skattkerfinu

Spurðir um hvort þeir teldu þörf á breytingum á skattkerfinu sagði Sigmundur Davíð svo vera og sagði sífelldar breytingar á því vera eina ástæðu þess að Ísland væri á sama stigi og Egyptaland, Rússland og mörg ríki Suður-Ameríku þegar kæmi að pólitískri óvissu. „Það varð ekkert úr tugum stórra fjarfestingaverkefna vegna breytinga á skattkerfi og óvissu á orku. Suma skatta er hægt að lækka mjög hratt og við þurfum að einfalda skattakerfi, skapa jákvæða hvata til að greiða skatta og þá er allt til alls á Íslandi,“ sagði Sigmundur Davíð.

Spurður að því hvort breyta ætti þrepaskiptingu skattkerfisins sagði hann að það mætti skoða, en fyrst og fremst þyrfti að hækka persónuafsláttinn. Það væri stórt vandamál að fólk með meðaltekjur væri skattlagt sem hátekjufólk og gæti þar af leiðandi ekki viðhaldið eðlilegri neyslu.

„Ég held að skattkerfisbreytingar verði ekki eins tíðar á næsta kjörtímabili,“ sagði Árni Páll og sagði að vissulega væri búið að hækka skatta, sem hefði verið óhjákvæmilegt. „Þegar ég fór fyrst á þing 2007 var búið að lækka skatta meira en ríkissjóður þoldi við. Við erum búin að laga það og nú er kominn tekjuöflunargrunnur.“ Spurður um skattalækkanir sagði hann þær ekki tímabærar, ekki væri búið að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. 

Segir Samfylkingu ekki einangraða

Sigurjón spurði Árna Pál hvort Samfylkingin væri ekki einangruð vegna þess að flokkurinn væri sá eini sem hefði aðild að Evrópusambandinu. Árni Páll kvað svo ekki vera. „Við eigum vaxandi hljómgrunn meðal almennings og annarra flokka. Björt framtíð og Vinstri græn vilja halda áfram viðræðum,“ sagði Árni Páll.

Sigmundur Davíð sagðist vera eindregið á móti því að Ísland gengi í Evrópusambandið.  „Mér finnst ekki æskilegt að við séum í aðildarviðræðum, en mér finnst eðlilegt að almenningur fái að ráða því hvort viðræðum sé haldið áfram,“ sagði Sigmundur Davíð.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári
Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert