Ósátt við að frumvarpið var ekki samþykkt

mbl.is/Styrmir Kári

„Okkur þykir afar leitt að Alþingi hafi ekki skilið mikilvægi þess að samþykkja lagafrumvarp sem hefði bætt fjárhagsstöðu námsmanna stórlega. Núna er frumvarpið í höndum kjósenda á Íslandi sem munu ráða úrslitum um örlög þess þegar þeir velja sér nýja þingmenn í lok apríl,“ segir Karina Ufert, formaður Sambands evrópskra stúdenta (ESU) í fréttatilkynningu.

Lagafrumvarpið um Lánasjóð íslenskra námsmanna hefði gert stúdentum kleift að breyta allt að 25 prósentum af námslánum sínum í námsstyrki hefði það verið samþykkt. ESU og Stúdentaráð Háskóla Íslands hvöttu Alþingismenn eindregið til að flýta meðferð málsins en það var þó ekki afgreitt í tæka tíð fyrir þinglok 28. mars en Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og formaður VG, mælti fyrir því þann 9. mars, segir í fréttatilkynningu.

Einstaklingar geta að hámarki fengið 1,265 milljónir á ári í námslán fyrir fullt nám eða um 3,9 milljónir á þremur árum. Því má áætla að þeir stúdentar sem nýti sér þetta úrræði skuldi að jafnaði um þrjár milljónir króna við útskrift. Frumvarpið var því afar mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenska stúdenta.

„Þessar breytingar hefðu sett stórkostlegt fordæmi fyrir háskólasamfélagið í Evrópu sem hefur staðið höllum fæti síðustu ár vegna efnahagsástandsins. En Ísland getur ennþá sýnt Evrópu að það sé mögulegt að snúa þessari alvarlegu þróun við með því að auka fjárfestingar á háskólastigi og bæta fjárhagslegan stuðning við stúdenta. Námsmenn þurfa að sjá hag í því að afla sér aukinnar þekkingar og reynslu óháð því hvaðan þeir koma eða hver fjárhagsstaða þeirra er. Nýja þingið, sem kemur saman eftir kosningar, þarf að afgreiða þetta mál eins fljótt og auðið er. Þingið þarf að skilja þá kosti sem tillagan hefur í för með sér fyrir námsmenn og samfélagið í heild,“ segir Ufert enn fremur í fréttatilkynningunni.

mbl.is