Framsókn ánægð - sjálfstæðismenn brýna vopnin

„Það er ánægjulegast að í þessu birtist staðfesta kjósenda í því að vilja sjá ákveðna forgangsröðun eftir kosningar, forgangsröðun sem við höfum talað fyrir og er um leið enn ein áminning til flokkanna um að taka mark á henni. Þess vegna hvet ég aðra flokka til að nálgast okkur fremur en líta á þetta sem ástæðu til að fara gegn stefnunni,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann segir að skoðanakannanir sýni meiri og hraðari breytingar en sést hafi í íslenskum stjórnmálum. Það sýni að aðhald kjósenda sé virkara.

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á fylgi framboða vegna þingkosninganna 27. apríl næstkomandi eru birtar í Morgunblaðinu í dag en samkvæmt þeim mælist Framsóknarflokkurinn með 30,9% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn fer úr 26,1% fylgi í síðustu skoðanakönnun stofnunarinnar í 18,9%. Samfylkingin stendur nokkurn veginn í stað á milli kannana með 12,6% og sama er að segja um Vinstrihreyfinguna - grænt framboð sem mælist með 8,8%. Björt framtíð lækkar hins vegar úr 11,4 í 10,9% á meðan Píratar auka fylgi sitt og eru nú með 5,6%.

Mikilvægast er að koma stefnunni til skila

„Við höfum trú á þeim stefnumálum sem við erum að tefla fram. Það er mikilvægast núna að koma þeim til skila en það hefur greinilega ekki gengið nógu vel hjá okkur, miðað við þessar kannanir,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarni tekur fram að mælingar á fylgi flokksins séu ekki í samræmi við upplifun sína og frambjóðenda flokksins undanfarna daga. „En við þessu er ekki nema eitt svar, að virkja til liðs við okkur allt það þéttriðna net trúnaðarmanna flokksins um allt land til að koma áherslum okkar á framfæri.“

„Þetta staðfestir þær miklu hræringar sem hafa verið að mælast upp á síðkastið. Hvað okkur varðar þá er þetta í samræmi við annað. Við höfum náð að stöðva þróunina,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. „Okkar verkefni er að finna viðspyrnu, sækja fram og koma skilaboðum okkar á framfæri við þjóðina,“ segir Árni. Hann segir að kosningabaráttan verði nýtt til að koma stefnu flokksins um vinnu og velferð á framfæri við þjóðina. Mikilvægt sé að fá tækifæri til þess á næstu vikum. „Þá spyrjum við að leikslokum.“

Sýnir hvað stjórnmálin eru óútreiknanleg

„Við erum auðvitað sátt við að mælast með 10,9% fylgi, verandi nýr flokkur, þótt þetta sé minna en við ætlum okkur. Við höldum áfram að reyna að koma sjónarmiðum okkar á framfæri,“ segir Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar. Hún segir að kosningabaráttan sé allt öðruvísi en hún átti von á. Mikil hreyfing sé á fylgi allra flokka og aðeins einn sem auki stöðugt við sig. „Þetta sýnir hvað stjórnmál geta verið óútreiknanlegur og spennandi vettvangur. Það er ómögulegt að spá hvernig þetta fer.“

„Við erum aðeins að þokast upp á við. Ég átti ekki von á neinum stórstökkum. Kosningabarátta okkar hófst fyrir viku. Mér finnst hún hafa gengið vel og okkur hefur verið vel tekið,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Hún segir það merkilega stöðu, ef það verði niðurstaðan að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki stærsti flokkur landsins aðrar kosningarnar í röð. „Það finnst mér merki um að staða hans sem valdaflokks í íslenskum stjórnmálum sé að líða undir lok,“ segir Katrín.

Mikilvægt að Píratar verði á næsta Alþingi

„Það er ánægjulegt að hafa náð yfir 5% þröskuldinn. Það er andlegur ómögulegheitaþröskuldur vegna þess að fólk er hrætt við að kjósa framboð vegna ótta við að atkvæðin detti niður dauð,“ segir Birgitta Jónsdóttir, frambjóðandi Pírata í SV-kjördæmi. Hún segir mikilvægt að Píratar verði á næsta Alþingi þar sem þeir nálgist stjórnmálin á nýjan hátt. „Það endurómar það mikla ákall almennings, ekki aðeins hér heldur víða um heim, um stjórnmálamenningu þar sem fólk hefur betra aðgengi að þeim sem eru að vinna fyrir það, betri upplýsingar og löggjöf.“