Óflekkað mannorð þarf á þing

Frá Alþingi. Margir vilja þangað, en þeir sem setjast á ...
Frá Alþingi. Margir vilja þangað, en þeir sem setjast á þing þurfa að hafa óflekkað mannorð. Kristinn Ingvarsson

Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis er hver sá kjörgengur sem er með kosningarétt og óflekkað mannorð. Engu að síður eru brögð að því að nokkrir þeirra, sem eru á listum flokkanna fyrir komandi þingkosningar, uppfylli ekki síðarnefnda skilyrðið og eru þá varla kjörgengir. Ekkert eftirlit er með þessu af hálfu yfirvalda.

„Yfirkjörstjórn hefur ekki eftirlitsskyldu og aflar ekki upplýsinga um hvern og einn frambjóðanda. Það er í sjálfu sér engin ábyrgð sem því fylgir að bjóða fram lista með slíkum einstaklingum og það hlýtur að vera á siðferðilega ábyrgð viðkomandi frambjóðanda og flokks að hann uppfylli skilyrðin,“ segir Guðni Á. Haraldsson hæstaréttarlögmaður. „Grundvallaratriðið er að menn séu ekki kjörgengir nema þeir séu með óflekkað mannorð.“

Í kosningalögum segir að enginn teljist hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dóm um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru. Þá segir í sama ákvæði að dómur fyrir refsivert brot hafi ekki í för með sér flekkun mannorðs nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og að refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.

Að sögn Guðna er hægt er að kæra til kjörstjórnar ef frambjóðandi uppfyllir ekki skilyrði kosningalaga. „Þá getur kjörstjórn einfaldlega tekið hann út af listanum.“

Alþingi ber að kanna sakaskrá þingmanna

En ef einstaklingur, sem ekki uppfyllir þessi skilyrði, nær kjöri. Má hann þá setjast á þing? „Nái viðkomandi kosningu til þings, þá kemur að eftirlitshlutverki Alþingis. Þá er hægt að kæra kosninguna til Alþingis sem getur þá úrskurðað sem svo að hann sé ekki kjörgengur og fái ekki sæti á þingi. En áður er þingmenn fá kjörbréf ber Alþingi að rannsaka þetta hjá hverjum einstökum þingmanni, hvort hann hafi hlotið dóm sem leiðir það af sér að mannorð hans sé ekki óflekkað.“

En getur það ógilt framboð að bjóða fram fólk sem þessu samkvæmt er ekki kjörgengt? „Að framboð setji svona mann á lista leiðir ekki til þess að listinn verði dæmdur ógildur. En þetta þyrfti að vera siðferðisleg spurning hjá þeim flokkum sem vilja láta taka sig alvarlega.“

Hefur ekki verið ofarlega í huga

Guðni segir það varla vera gott til afspurnar fyrir flokk eða stjórnmálahreyfingu að fá mann kjörinn á þing sem síðan fær ekki að setjast á það vegna þess að hann uppfyllir ekki skilyrðin. „Eftirliti virðist ábótavant innan flokkanna, en vonandi verður sú umræða sem hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu til þess að vekja flokkana til vitundar um þetta. Einhverra hluta vegna virðist þetta atriði ekki hafa verið þeim ofarlega í huga.“


mbl.is

Bloggað um fréttina