Össur varar við Sjálfstæðisflokki

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson Eva Björk Ægisdóttir

Össur Skarphéðinsson, fráfarandi utanríkisráðherra, segir að yfirlýsing Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, um að hann sé mótfallinn því að Sjálfstæðisflokkur geri sig ábyrgan fyrir loforðum Framsóknarflokks sé táknræn fyrir stjórnleysi innan Sjálfstæðisflokks.

Fréttavefurinn Eyjan ræddi í dag við Elliða þar sem hann sagði meðal annars: „Ég bæði held og vona að það verði vandkvæðum bundið að fá Sjálfstæðisflokkinn til að verða ábyrgan fyrir loforðum Framsóknarflokksins.“

Össur tekur málið upp í pistli á vefsvæði sínu. „Í fyrsta lagi myndi ábyrgur þungavigtarmaður með óduldar langanir til pólitísks framhaldslífs á stærra sviði en undir Heimakletti tæpast ganga fram fyrir skjöldu með svo svera yfirlýsingu – nema hann viti að hann talar fyrir munn breiðrar kirkju innan Sjálfstæðisflokksins,“ segir Össur.

Þá segir Össur að framsóknarmenn geti ráðið af orðum Elliða að þungavigtin í forystu flokksins á landsbyggðinni sé á móti skuldalækkunartillögum Framsóknarflokks, rétt eins og meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokks. Að lokum varar hann Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokks, við Sjálfstæðisflokknum. „Í tveggja flokka stjórn yrði Sigmundur ekki aðeins að takast á við grjótharða og þaulreynda stjórnarandstöðu, erfiðan vinnumarkað heldur líka stjórnlausan Sjálfstæðisflokk – þar sem hver höndin er upp á móti annarri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina