Fóru saman út úr bænum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefja fyrir hádegið í dag formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Ekki er gefið upp hvar fundur þeirra fer fram, en hann er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins.

„Við viljum fá smá næði til að byrja með,“ sagði Sigmundur Davíð í samtali við mbl.is í morgun þegar hann var spurður hvar fundurinn færi fram. Hann sagðist reikna með að fundurinn stæði í allan dag og jafnvel fram eftir kvöldi.

„Fyrsta mál er að ákveða dagskrána,“ sagði Sigmundur Davíð þegar hann var spurður hvaða mál yrðu á dagskrá fundarins. „Ég geri ráð fyrir að við munum reifa nokkur þessara stærri mála, án þess endilega að klára þau í dag.“

Féllust á að ræða tillögur framsóknarmanna

Sigmundur Davíð sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis í gær um að hann hefði ákveðið að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Hann sagði í samtali við mbl.is í gær að þetta væri niðurstaða sín eftir að hafa rætt við formenn allra flokka um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Sjálfstæðismenn hefðu fallist á að ræða málin á grundvelli þeirra tillagna sem framsóknarmenn hefðu lagt fram.

„Ég met undirbúningssamtöl mín við formann Sjálfstæðisflokksins svo að góður vilji sé til þess af hans hálfu að vinna að útfærslu á aðgerðum vegna skuldamálanna með árangur fyrir heimilin í forgrunni lausnanna. Verði í því augnamiði horft til þeirra hugmynda að lausn sem Framsókn hefur unnið að og kynnt og jafnframt og um leið til þeirra útfærslna sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði lagt áherslu á, sem leið að sama marki,“ segir í yfirlýsingu Sigmundar Davíðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina