Flestir strikuðu yfir nöfn Guðlaugs og Álfheiðar

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Ómar

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður strikuðu flestir yfir nafn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í nýafstöðnum þingkosningum. Útstrikanir, eða færsla í sæti neðar en nemur röðunartölu, voru 564. Hlutfallið af atkvæðatölu listans nemur 5,96%, samkvæmt upplýsingum frá landskjörstjórn.

Guðlaugur var þriðji maður á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem var efsti maður listans, kemur næst á eftir Guðlaugi með 157 útstikanir. Nemur hlutfallið 1,66%.

Sé litið til annarra flokka í kjördæminu þá strikuðu stuðningsmenn Vinstri grænna flestir yfir nafn Álfheiðar Ingadóttur, sem var önnur á lista VG í kjördæminu, en útstrikanirnar voru 242. Hlutfallið af atkvæðatölu listans í kjördæminu nemur 5,66%.

Þeir sem kusu Framsóknarflokkinn strikuðu flestir yfir nafn Vigdísar Hauksdóttur, sem var efsti maður listans. Útstrikanir voru 229 og var hlutfallið 3,89%. Aðrir frambjóðendur Framsóknar í kjördæminu voru með mun færri útstrikanir.

Alls var strikað 83 sinnum yfir nafn Marðar Árnasonar á lista Samfylkingarinnar í kjördæminu og 68 strikuðu yfir nafn Bjarkar Vilhelmsdóttur. Björk var þriðji maður á lista flokksins í kjördæminu og Mörður fjórði.

Á lista Bjartrar framtíðar var oftast strikað yfir nafn Róberts Marshalls, sem var efsti maður listans, eða 89 sinnum. Hlutfallið af atkvæðatölu listans nemur 2,35%.

Strikað var yfir nafn Jóns Þórs Ólafssonar, sem var efsti maður listans, 85 sinnum á lista Pírata. Nam hlutfallið 3,90%.

Tekið skal fram að ofangreindar útstrikanir hafa engin áhrif á röð frambjóðenda á listum.

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert