Aðildarferlið verður stöðvað strax

Frá fundi flokksráðsins í Valhöll í kvöld.
Frá fundi flokksráðsins í Valhöll í kvöld. Ljósmynd/Guðlaugur Þór Þórðarson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, segir í samtali við mbl.is að aðildarferlið að Evrópusambandinu verði stöðvað þegar í stað. Nánari útfærsla á því verði hins vegar kynnt á næstunni. Sjálfstæðisflokkur fær í ríkisstjórnarsamstarfinu fimm ráðherra og Framsóknarflokkur fjóra.

„Við skipum fjármálaráðherra, innanríkisráðherra, menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra í velferðarráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðherra í atvinnuvegaráðuneyti. Framsóknarflokkur fær forsætisráðuneytið. Hann skipar félagsmálaráðherra í velferðarráðuneytið, hann er með landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem jafnframt verður umhverfisráðherra. Svo er hann með utanríkisráðherrann. Þannig að það er gengið út frá því að þau byrji með fjóra ráðherra,“ segir Bjarni.

Þá sagði Bjarni að gengið væri út frá því að Sigmundur verði forsætisráðherra út kjörtímabilið og Bjarni fjármálaráðherra til loka þess. Ekki hafi verið samið um að annað að sinni.

Aðspurður um breytingar á veiðigjöldum sagði Bjarni að það yrði útskýrt nánar á morgun. Hann upplýsti hins vegar að hafist verði handa við ýmsar aðgerðir, þar með talið skattalækkanir strax á sumarþingi.

Hann vildi þó taka fram að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að færast of mikið í fang líkt og síðasta ríkisstjórn.

Hvað skuldamál heimilanna varðar boðar Bjarni margþættar aðgerðir sem ráðist verði í strax á þessu ári. Hann vildi hins vegar ekki ræða útfærslur á þessu stigi.

Bjarni telur allar líkur á það þetta verði farsæl ríkisstjórn og mátti skilja á svörum hans að hann teldi að hér væri lagt upp í samstarf sem myndi ná yfir meira en kjörtímabil.

mbl.is