Gera ekki upp á milli út frá kyni

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Kristinn Ingvarsson

„Er það ekki gott fordæmi í jafnréttismálum ef maður gerir ekki upp á milli manna út frá kyni,“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Helga Seljan þáttarstjórnanda Kastljóss þegar sá síðarnefndi spurði út í kynjahlutfallið í nýrri ríkisstjórn, en af níu ráðherrum eru þrjár konur.

Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, voru gestir í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld. Þar var Sigmundur meðal annars spurður út í kynjahlutfallið. Sigmundur svaraði því til að sætin væru ekki mörg og fyrir vikið gætu sveiflurnar í hlutföllum orðið miklar út frá einu sæti. „En þær verða ábyggilega á hinn veginn líka,“ sagði Sigmundur.

Þegar Bjarni var spurður út í umhverfis- og auðlindaráðuneytið sagði hann misskilnings hafa gætt í umræðunni. „Það breytist ekkert þar,“ sagði Bjarni og bætti við að það verði enn umhverfisráðuneyti með sinn ráðuneytisstjóra. Ekki sé verið að leggja það niður eða sameina ráðuneytið öðru. Það eina sem gerist er að sami ráðherrann verður einnig yfir öðru ráðuneyti, þ.e. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Hann sagði að þetta hefði verið niðurstaða þeirra Sigmundar Davíðs og ekki að vanhugsuðu máli. Skýrari pólitíska forystu þurfi í málaflokkum velferðarráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis. Ráðuneytin verði ekki brotin upp, að svo komnu máli, en skerpa þurfi áherslurnar til að ná betri árangri. 

Fékk bréf frá Jemen og ESB

Þá voru þeir spurðir út í Evrópusambandið og aðildarviðræðurnar. Nefndi Sigmundur Davíð þá að hans hefðu beðið tvö bréf þegar hann tók við embætti forsætisráðherra. Annars vegar hafi verið um að ræða heillaóskir frá Jemen og hins vegar bréf frá framkvæmdastjóra Evrópusambandsins. Þar hafi hann lýst yfir vilja til að halda áfram góðu sambandi og samskiptum við Ísland. „Við munum gera Evrópusambandinu grein fyrir breyttri stöðu og skila til þingsins skýrslu um stöðuna í aðildarviðræðunum og einnig um stöðuna innan ESB,“ sagði Sigmundur.

Hann bætti við að þegar þingið hafi fengið þessar upplýsingar og tekið málið til umræðu geti menn metið framhald viðræðna.

Bjarni sagði rétt að taka eitt skref í einu. Fá þurfi fram viðbrögð Evrópusambandsins við þessum fregnum, þ.e. að hlé sé gert á aðildarviðræðunum. Hann benti á að Ísland sé ekki eitt í viðræðunum heldur öll ríki ESB. 

Ennfremur sagði Bjarni að þjóðaratkvæðagreiðsla sé góð til til að fá niðurstöðuna, fyrst þurfi að gera hlutina í réttri röð og hans upplifun sé að þrýstingur hjá þjóðinni á að fá niðurstöðu í málið hafi minnkað mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert