Ekki dómur yfir sitjandi borgarfulltrúum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi sóttist eftir öðru sætinu í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík en hafnaði í því þriðja. Hann segist sáttur við sinn hlut og bendir á að hann hafi fengið flest atkvæði í heild, eða 3.342. „Ég lít á það sem mikla viðurkenningu fyrir mín störf og hvatningu til að gera betur,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is. Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fékk flest atkvæði í fyrsta sætið og mun leiða listann í næstu borgarstjórnarkosningum.

Hvað finnst Kjartani um að landsbyggðarmaður hafi sigrað í prófkjörinu í höfuðborginni?

„Ég hef ekkert nema gott um hann að segja,“ segir Kjartan og segist ekki líta á sigur hans sem dóm yfir störfum þeirra borgarfulltrúa sem buðu sig fram í efstu sæti listans.

„Flestir borgarfulltrúarnir fá áfram mjög góða kosningu. Júlíus varð í öðru sæti í síðasta prófkjöri og fær það áfram. Ég var í þriðja sæti síðast og fæ það áfram. Þorbjörg Helga varð í fjórða sæti síðast og fær það áfram. Sitjandi borgarfulltrúar fá mjög góða útkomu. Það er ekkert verið að fella dóm yfir okkur.“

Kjartan segir að strax verði hafist handa við næsta verkefni: Að undirbúa borgarstjórnarkosningar.

mbl.is