Framsókn bætir við sig

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynna aðgerðir …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynna aðgerðir stjórnvalda til að leiðrétta skuldastöðu heimilanna. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnarflokkarnir fengju samanlagt 43,4% fylgi ef gengið yrði til þingkosninga nú, samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 23,3% atkvæða og Framsóknarflokkurinn 20,1%. Þetta er nærri átta prósentustigum minnna en flokkarnir fengu í þingkosningum í apríl sl. þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,7% atkvæða og Framsóknarflokkurinn 24,4%. Könnunin var gerð dagana 2. og 3. desember sl., eða eftir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum voru kynntar.

Hins vegar er niðurstaðan núna athyglisverðari í samanburði við síðustu könnun Félagsvísindastofnunar, sem gerð var í nóvember síðastliðinn, eða áður en skuldaleiðréttingarnar voru kynntar. Þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 24,1% atkvæða en Framsóknarflokkurinn með aðeins 13,2%, eða um 11 prósentustigum minna en í kosningum. Síðan í nóvember hafa aðrir flokkar tapað fylgi, að Pírötum undanskildum. Alls tóku 811 þátt í könnuninni nú og þar af gaf 651 upp afstöðu sína.

Ánægja kjósenda stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, með tillögur ríkisstjórnarinnar um leiðréttingar skulda er mun meiri en þeirra sem myndu kjósa aðra flokka. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar um afstöðu til tillagnanna, sem sagt var frá í blaðinu í gær, eru 48% kjósenda Framsóknarflokks mjög ánægð og 44% frekar ánægð. Aðeins 2% framsóknarmanna eru mjög óánægð með tillögurnar. Af kjósendum Sjálfstæðisflokksins eru 34% mjög ánægð og 47% frekar ánægð.

Innan raða kjósenda Bjartrar framtíðar reyndust 34% mjög eða frekar ánægð, 20% hjá kjósendum Samfylkingar og 18% hjá VG.

Svipaða sögu er að segja um afstöðu til þess hvort aðgerðaáætlun stjórnvalda myndi hafa mikil eða lítil áhrif á fjárhaginn. Þar eru kjósendur stjórnarflokkanna jákvæðari en aðrir, hóflega þó. Um 25% framsóknarmanna telja áætlunina hafa mjög eða frekar mikil áhrif og 19% sjálfstæðismanna, en t.d. aðeins 2% samfylkingarfólks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »