Gunnar að grafa undan Ármanni

Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi
Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, er að grafa undan bæjarstjóranum, Ármanni Kr. Ólafssyni, með stuðningi við tillögu minnihlutans í húsnæðismálum og styrkja þannig vígstöðu Margrétar Friðriksdóttur, skólameistara MK. Þetta er mat Hjálmars Hjálmarssonar bæjarfulltrúa.

Eins og komið hefur fram á mbl.is stefnir Margrét á 1. sæti Sjálfstæðismanna í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Hjálmar situr í bæjarstjórn fyrir Næstbesta flokkinn og íhugar nú hvort hann muni vinna með Bjartri framtíð á næsta kjörtímabili. Hafa liðsmenn Bjartrar framtíðar boðað til fundar um sveitarstjórnarkosningarnar framundan í Hamraborginni í kvöld og tekur Hjálmar fram að dagsetningin hafi verið ákveðin löngu áður en titringur hjá meirihlutanum braust út í gær.

Að sögn Hjálmars hafa þeir Gunnar og Aðalsteinn Jónsson, Sjálfstæðisflokki, eldað grátt silfur við Ármann og Ómar Stefánsson, Framsóknarflokki, á kjörtímabilinu. Gunnar sé nú að gera upp gamlar sakir með stuðningnum við minnihlutann.

Meirihlutinn óstarfhæfur vegna deilna

- Hvert er þitt mat á stöðu meirihlutans?

„Þegar núverandi meirihluti tók við kallaði ég hann óstarfhæfa meirihlutann. Hann hefur þannig í raun verið óstarfhæfur. Samvinnan milli Gunnars og Ómars var ekki góð. Allt frá 2010 hefur verið mjög erfitt samstarf innan Sjálfstæðisflokksins. Aðalsteinn Jónsson er í liði Gunnars.

Um áramótin 2010 var gerð fyrsta fjárhagsáætlunin á vegum gamla meirihlutans. Það tóku allir þátt í því nema Gunnar. Hann gat ekki verið með sjálfstæðismönnum þar. Árið 2011 er Ómar Stefánsson með okkur í fjárlagagerðinni en allur Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram sína eigin fjárhagsáætlun. 

Eftir að nýi meirihlutinn tekur við hefur alltaf verið mjög stirt samstarf innan Sjálfstæðisflokksins. Þar koma bæði til persónulegar og pólitískar áherslur sem stangast á. Öll verk hafa gengið hægar en ella hjá nýja meirihlutanum vegna þessa,“ segir Hjálmar en núverandi meirihluti tók við í ársbyrjun 2012, eftir að þáverandi meirihluti Samfylkingar, VG, Næstbesta flokksins og Y-listans sprakk.

„Það tókst til dæmis ekki að samþykkja aðalskipulag á réttum tíma. Það sem er að gerast núna lít ég svo á að fyrir utan málefnið sjálft, skort á félagslegum leiguíbúðum, sem er brýnt mál og leiddi til þess að meirihlutinn klofnaði í gær, að séu pólitískar hræringar,“ segir Hjálmar og víkur að óvild milli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert