Bar skylda til að fara fram á lánshæfismat

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir að sér hafi borið skylda til að fara fram á nýtt lánshæfismat fyrir bæinn í ljósi nýlegrar samþykktar minnihluta bæjarstjórnar um kaup og byggingu á félagslegu- og leiguhúsnæði. 

Matið var framkvæmt af lánshæfismatsfyrirtækinu Reitun, sem hefur unnið að slíku mati fyrir bæinn í nokkur ár. Umrædd samþykkt var gerð á fundi bæjarstjórnar í fyrradag og fjallar um kaup á 30-40 félagslegum íbúðum og byggingu tveggja fjölbýlishúsa fyrir leigumarkað. Að samþykktinni stóðu fulltrúar minnihlutans, Samfylkingar, VG og Næstbesta flokksins auk Gunnars Birgissonar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Y-listi mynda meirihlutann í bæjarstjórn Kópavogs.

„Ég varaði við áhrifum þessa á lánshæfimatið. Ég nánast grátbað menn á fundinum [í fyrradag] um að gera þetta ekki,“ segir Ármann. „Þarna var ekki verið að hugsa um hagsmuni bæjarbúa.“

Sagður hafa talað lánshæfismatið niður

Ármann segir lánshæfimatið einnig hafa verið gert vegna fyrirhugaðrar lántöku Kópavogsbæjar í mars upp á 1,5 milljarða króna. Hann hefur verið gagnrýndur af fulltrúum minnihlutans fyrir að hafa talað lánshæfimatið niður með gífuryrðum og rangmælum og þá hefur því verið haldið fram að sú upphæð sem Ármann hefur nefnt í þessu sambandi, þrír milljarðar, eigi ekki við rök að styðjast.

 „Hvernig það á að hafa getað gerst? Með því að vera raunsær?,“ spyr Ármann. „Forsendurnar að baki 3 milljörðunum eru þessar: er keyptar verða, eins og lagt var til, 40 félagslegar íbúðir og þar til viðbótar byggð tvö fjölbýlishús. Algeng stærð á fjölbýlishúsi í byggingu í Kópavogi  og á skipulagi (meðaltalsútreikningur á skipulögðum fjölbýlishúsalóðum) er 30 íbúða hús. Samtals eru þetta því 100 íbúðir. Sérstök áhersla var lögð á það í umræðunni að þetta ættu ekki einungis að vera litlar íbúðir og því ætti verð á íbúð að vera varlega áætlað 30 milljónir króna.  Samanlagt eru þetta því a.m.k. þrír milljarðar króna.“

Komið hefur fram að mikil þörf sé fyrir félagslegt húsnæði í Kópavogi og hafa þeir sem að samþykktinni stóðu m.a. sagt að málið snúist um mikla neyð þeirra sem þurfi á því að halda. Samkvæmt tölum Félagsbústaða hf átti Kópavogur 10,1 almennar félagslegar leiguíbúðir á hverja 1000 íbúa árið 2012 og er það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu, á eftir Reykjavík, sem á næstflestar slíkar íbúðir.

Ármann segir að fækkað hafi á biðlistum eftir félagslegu húsnæði í bænum undanfarin ár, enda hafi íbúðum fjölgað. „Það var ekki verið að hugsa um hagsmuni bæjarbúa í þessum gjörningi, svo mikið er víst. Í þessu máli var verið að taka persónulega hagsmun einstakra bæjarfulltrúa fram yfir hagsmuni Kópavogsbæjar.“

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að hann hefði átt fund með Ármanni þar sem Ómar hefði gert grein fyrir þeim væntingum sem Framsókn gerði til áframhaldandi meirihlutasamstarfs flokkanna. „Ég læt Framsókn um að útskýra sínar væntingar,“ svarar Ármann, spurður út í þetta. Mun samstarfið halda áfram? „Ég á ekki von á öðru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert