Sækist eftir 1. sæti VG í Reykjavík

Líf Magneudóttir.
Líf Magneudóttir.

Líf Magneudóttir gefur kost á sér í 1. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík en valfundur hreyfingarinnar fer fram þann 15. febrúar. Líf hefur setið í skóla- og frístundaráði fyrir Vinstri græn frá kosningunum 2010.

„Við búum í ólíkum hverfum, við ólíkar aðstæður“ segir Líf „samt eigum við ótal margt sameiginlegt. Ég hef fundið fyrir því að að Reykvíkingar vilja hafa bein áhrif á borgina sína,“ segir Líf í tilkynningu.

Að mati Lífar er ekki nóg að gefa Reykvíkingum kost á því að velja hvort ráðist sé í að laga rólur á leikskólum eða gera við gangstéttar. Það á ekki að vera þörf á því að kjósa um eðlilegt viðhald.

„Það er líka löngu tímabært að rjúfa þá múra sem hafa risið á milli stjórnmálanna og íbúa Reykjavíkur,“ segir hún. „Það er kominn tími til að fá íbúa að borðinu til að taka ákvarðanir um mál sem snerta þá og hafa áhrif á umhverfi þeirra og framtíð. Jafnt í stórum og mikilvægum málum sem varða alla sem og þeim er varða færri en geta skipt þann hóp miklu. Við þurfum að byggja upp samfélag og borg sem einkennist af samhug og samtakamætti,“ segir hún ennfremur.

Kallað er eftir jöfnuði, jafnrétti kynjanna, umhverfisvernd, rétti komandi kynslóða, lýðræðislegum vinnubrögðum, gagnsæi og framsýni.

„Allt eru þetta áherslur Vinstri grænna. Það þarf átak til að leiða fram breytingar, þær falla ekki af himnum ofan. Reykjavík er frábær borg og saman getum við gert hana betri. Ég er tilbúin til þess að leggja mig alla fram um að leiða fram breytingar sem skipta máli fyrir borgarbúa. Ég vil auka áhrif þeirra, tryggja heilsusamlegt umhverfi og mannvæna borg fyrir unga sem aldna. Því sækist ég eftir því að leiða Vinstri græn í kosningunum í vor og taka þátt í að móta borg framtíðarinnar með íbúum hennar.“

Líf er fædd árið 1974. Hún er í sambúð með Snorra Stefánssyni lögmanni og eiga þau fjögur börn á aldrinum eins til þrettán ára. Þau búa í Vesturbæ Reykjavíkur. Líf er grunnskólakennari að mennt og lýkur í vor meistaragráðu í íslenskukennslu.

mbl.is