Fylgi stjórnarflokkanna undir 40%

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Kristinn Ingvarsson

Sjálfstæðisflokkur mælist með 19% fylgi og Framsóknarflokkur 13% síðastliðna sjö daga, eða frá því utanríkisráðherra lagði fram tillögu um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup og greint var frá í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Ef miðað er við 1. febrúar til dagsins í gær mælist Sjálfstæðisflokkurinn með tæplega 24% fylgi og Framsóknarflokkur rúm 15%. Fylgi beggja flokka minnkar um þrjú prósent milli mánaða. 

Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er því komið undir fjörutíu prósent, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup.

Bæði Samfylking og Björt framtíð mælast með meira fylgi en Framsóknarflokkur. Samfylkingin með tæp 17% og Björt framtíð með tæp 16%. Vinstrihreyfingin grænt framboð mælist með 13% fylgi og Píratar með tæp 10%.

Í frétt Ríkisútvarpsins sagði einnig, að hafa verði í huga að eini tölfræðilega marktæki munurinn á fylgi flokkanna fyrstu þrjár vikur mánaðarins og þá síðustu sé á fylgi Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is