Þorleifur mun leiða Dögun í borginni

Þorleifur Gunnlaugsson.
Þorleifur Gunnlaugsson.

Þorleifur Gunnlaugsson mun leiða lista Dögunar í Reykjavík. Þorleifur hefur verið borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi fyrir Vinstri-græna til margra ára. Hann hefur setið í ýmsum fagráðum borgarinnar s.s velferðarráði, umhverfis- og samgönguráði, íþrótta- og tómstundaráði, framkvæmda- og eignaráði sem og borgarráði og borgarstjórn.

Þorleifur var um tíma formaður hverfisráðs Árbæjar og hefur setið í mörgum nefndum á vegum borgarinnar, þar á meðal stefnumarkandi nefndum s.s. nefnd um stefnu um mannréttindi utangarðsfólks, nefnd um stefnu um mannréttindi eldri borgara og stefnumótandi nefnd um þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum. Þess utan sat Þorleifur um tíma í stjórn Faxaflóahafna, Orkuveitu Reykjavíkur og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem hann var varaformaður um skeið.

Þorleifur stjórnaði nefnd á vegum innanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili um eflingu sveitarstjórnarstigsins og nefnd um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði. Þorleifur hefur látið sig varða ýmis mannréttindamál, velferðarmál, umhverfismál og lýðræðismál, svo nokkuð sé nefnt.

Í fréttatilkynningu segir að Þorleifur telji að Dögun eigi fullt erindi við samfélagið m.a. þar sem fátækt hefur aukist og fátækum fjölgað og því sé þörf á hreyfingu sem vinni að alvöru að hagsmunum tekjulágra. „Markmiðið er að byggja upp hreyfingu sem gæti að því að allir borgarbúar fái lifað með reisn, allir hafi í sig og á, þak yfir höfuðið og öll börn fái að þroskast á eðlilegan hátt.“

Uppstillingarnefnd mun gera tillögur um fólk í önnur sæti listans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert