Engar forsendur til að styðja Guðna

Guðrún Bryndís Karlsdóttir.
Guðrún Bryndís Karlsdóttir.

„Ég get ekki stutt mann sem ég þekki ekki. Ég get ekki stutt einhvern sem ekki hefur talað við mig og ekki boðið mér það að styðja sig. Ég geri það ekki úti í bláinn, ég hef engar forsendur til þess,” segir Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sem skipar annað sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík. 

Með orðum sínum vísar hún til þeirrar atburðarásar sem leiddi til þess að Guðna Ágústssyni hefur verið boðið 1. sæti á lista flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Hún segir það gert í trássi við reglur og samþykktir flokksins.  Fram kom í fréttum um helgina að Guðni ætlar að greina frá því á sumardaginn fyrsta, hvort hann tekur sæti á lista Framsóknar í Reykjavík.

Ekki boðið undir feldinn

„Hann fékk þetta umboð til að setja saman lista. En samkvæmt reglum flokksins þá samþykkir hann lista sem ég er í öðru sæti á. Það er farið framhjá því með einhverjum snúningum í kjölfar þess að Óskar (Bergsson) fór. Allt þetta er vinna sem fer fram til hliðar við flokkinn. En ég skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem að flokkurinn sýnir mér. Ég hef ekki samvisku til þess að ganga í burtu,“ segir Guðrún. 

Hún segir að þrýst hafi verið á sig að hætta við framboðið. „Ég er nýliði í stjórnmálum en þetta er allt saman mjög skrítið, svo mikið veit ég,” segir Guðrún og bætir við. „Þessi vinna fór fram í reykfylltum bakherbergjum og þaðan undir feld. Þar er fullt af mönnum sem ekki hafa boðið mér undir feldinn,” segir Guðrún.

Guðni fulltrúi gömlu stjórnmálanna

Hún segir að Guðni standi fyrir annars konar stjórnmál en hún. „Hann er tengdur stjórnmálum af gamla skólanum. Það eru því engar forsendur fyrir því að ég fari á lista hjá honum. Samkvæmt flokksreglum þá er óskað eftir frambjóðendum en það er ekki gert núna. Ég lít svo á að framboð Guðna sé ótengt því verkefni sem flokkurinn treysti mér fyrir,” segir Guðrún Bryndís.

Frétt mbl.is: Kjördæmasambandið styður Guðna 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert