Segir Halldór njóta stuðnings

Óttarr Guðlaugsson, formaður Varðar.
Óttarr Guðlaugsson, formaður Varðar. mbl.is/Ómar

Óttarr Guðlaugsson, formaður Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, segir að stjórnin lýsi yfir fullum stuðningi við Halldór Halldórsson sem oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Stjórn Varðar hittist á fundi í hádeginu sem lauk nú á öðrum tímanum. Að sögn Óttars var um reglubundinn fund að ræða. Óttarr neitar því að boðað hafi verið til fundarins til að ræða stöðu Halldórs fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. 

„Hann var ekki boðaður sérstaklega til að meta stöðu Halldórs heldur var hann boðaður til að ræða kosningarnar og þau verkefni sem framundan eru,“ segir Óttarr í samtali við mbl.is.

Þarf að koma málefnum flokksins betur á framfæri

„Við lýsum yfir stuðningi bæði við oddvitann og framboðslistann í heild sinni,“ segir Óttar er hann er spurður hvort það komi til greina að skipta um oddvita.

„Okkar meginverkefni í dag er að koma málefnum okkar betur á framfæri. Það eru verkefni númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Óttarr.

Um 30 manns, bæði stjórn Varðar og kosningastjórar, sátu fundinn sem lauk um 13:30.

Baráttuandinn til fyrirmyndar

Eftirfarandi yfirlýsing var samþykkt á fundi Varðar í dag vegna umfjöllunar fjölmiðla um stöðu Halldórs. Hún er svohljóðandi:

„Stjórn Varðar ítrekar einróma fullan stuðning við framboðslista Sjálfstæðisflokksins og oddvita hans Halldór Halldórsson.  Stjórnin lýsir jafnframt ánægju sinni með þann baráttuanda sem ríkir meðal  frambjóðenda flokksins.“   

Ræða hvort Halldór stígi til hliðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert