Glaðbeittur Dagur kaus í Ráðhúsinu

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, kaus í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgunsárið. Í samtali við mbl.is segir hann að kosningarnar leggist mjög vel í sig.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Það var búið að spá hellirigningu, en nú er bara léttur úði og síðan styttir upp í hádeginu. Það er mikil stemning í loftinu,“ segir hann.

„Ég hef verið þeirrar skoðunar að húsnæðismálin séu stóru málin og þau hafa fengið mikla athygli í kosningabaráttunni, sem er eðlilegt, og ég er ánægður með það. Baráttan hefur kannski verið rólegri heldur en oft áður. Kannski bara eins og sjálft kjörtímabilið. Nú er bara að bíða og sjá hverjar niðurstöðurnar verða,“ bætir hann við.

Hann hvetur alla, unga sem aldna, til að mæta á kjörstað og nýta kosningarétt sinn.

„Værukærð er ekki til í mínum beinum. Nú þarf að minna alla á að kjósa.“

Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið er Samfylkingin langstærsti flokkurinn í Reykjavík. Af þeim sem afstöðu tóku ætluðu 37,3% að kjósa flokkinn. Þetta er aukning frá síðustu könnun sem birt var 20. maí en þá mældist fylgið 34,1%. Í kosningunum árið 2010 fékk Samfylkingin 19,1% atkvæða og þrjá borgarfulltrúa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert