„Það eru allir afar svekktir yfir því sem gerðist þar sem búið var að leggja mikinn metnað í efnið og þetta er litið alvarlegum augum hjá okkur,“ segir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, en líkt og margir tóku eflaust eftir lá vefur RÚV niðri í um einn og hálfan tíma að hluta á kosninganótt um síðastliðna helgi.
Magnús segir ekki ljóst hvort aukið álag á vefnum hafi valdið tækniörðugleikunum en vinna við að komast að því hvað hafi farið úrskeiðis stendur nú yfir. Þá er ekki ljóst hvort vandinn liggi innan RÚV eða hjá samstarfsaðilum. „Okkar fólk er að meta hvað hafi valdið en það er alveg ljóst að það var gríðarlega mikið álag á vefnum,“ segir hann.
„Hins vegar undirstrikar þetta þörfina fyrir breytingar líkt og við í nýrri framkvæmdastjórn RÚV höfum bent á. Við höfum boðað stórátak í vefmálum og munum leggja stóraukna áherslu á vefinn og nýmiðla. Þessi vefur er kominn til ára sinna og gæti verið mun betri,“ segir Magnús.
Hann segir nýja vefinn koma til með að standast nútímakröfur bæði hvað varðar efni og öryggi en ekki liggur þó fyrir hvenær hann fari í loftið. „Vinna og forritun við vefinn er nú í fullum gangi,“ segir hann.