Býður sig ekki fram til endurkjörs

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði þjóðina fyrir stundu.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði þjóðina fyrir stundu. Skjáskot/RÚV

Ólafur Ragnar Grímsson mun ekki bjóða sig fram til endurkjörs. Þetta kom fram í nýársávarpi forsetans rétt í þessu. Komst hann við þegar hann horfði til baka yfir þann tíma sem liðinn er frá því að hann og eiginkona hans heitin, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fluttu á Bessastaði.

„Sú margþætta óvissa sem fyrir fjórum árum leiddi til áskorana um að ég gegndi áfram embætti forseta mótar [...] ekki lengur stöðu okkar Íslendinga. Því er niðurstaðan sem ég lýsti hér á nýársdag 2012 enn frekar í gildi nú; að aðstæður þjóðarinnar séu þess eðlis að ég geti fremur orðið að liði ef val á verkefnum verður eingöngu að mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forseta setur jafnan orðum og athöfnum.

Margir hafa þó á undanförnum mánuðum, í samræðum, með orðsendingum eða bréfum, höfðað til skyldu minnar og áréttað að enn ríkir óvissa á ýmsum sviðum, einkum varðandi skipan Alþingis og ríkisvalds á komandi árum. Ég met mikils traust sem allt það góða fólk sýnir mér en bið það og landsmenn alla að íhuga vel lýsinguna á kjörstöðu Íslands sem ég hef í dag gert að meginboðskap. Í ljósi hennar og á grundvelli lýðræðisins, sem er okkar aðalsmerki, finnast mér blasa við hin réttu vegamót til að færa ábyrgð forseta á aðrar hendur og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs,“ sagði forseti.

mbl.is