Ástþór vongóður í þetta skiptið

Ástþór Magnússon er hann tilkynnti forsetaframboð sitt þann 2. mars …
Ástþór Magnússon er hann tilkynnti forsetaframboð sitt þann 2. mars 2012. mbl.is/Golli

Ástþór Magnússon tilkynnti í dag um að hann hygðist bjóða sig fram til forseta Íslands í fjórða skiptið. Hann segir að nái hann kjöri verði forsetaembættið ein stærsta tekjulind þjóðarinnar. Hann segir ástæðu þess að fyrri framboð hans hafa fengið lítinn hljómgrunn m.a. vera ómálefnalega umfjöllun fjölmiðla.

Framboð Ástþórs ber heitið „Virkjum Bessastaði“ og þar er átt við að nýta embætti forseta Íslands til að stuðla að friði. „Minn málstaður, virkjum Bessastaði til friðarmála, kemur fleirum við og er nauðsynlegri en annað. Það sem hefur gerst síðastliðin tuttugu ár,  það hefur allt ræst sem ég hef spáð fyrir um t.d. eins og þegar það var ráðist inn í Írak að það mundi leiða til upplausnar og það að við myndum færast til styrjaldarástands ef við gripum ekki í taumana og byrjuðum að boða nýja hugmyndafræði,“ segir Ástþór í samtali við mbl.is.

Höfum ekki efni á skrautfjöður

„Það þarf nýja hugmyndafræði í alþjóðastjórnmálum til þess að kveða niður þennan ófrið sem er að vaxa. Við höfum í raun og veru tapað 20 árum sem hefði mátt nýta til að reyna að lægja þessar öldur með nýjum áherslum. Það þarf einhvern í embætti forseta til að koma fram með þá hugmyndafræði því að forseti hefur aðgang að bæði fjölmiðlum ráðstefnum og alls konar stöðum þar sem að hægt er að koma fram á sem að einstaklingar út í bæ eins og ég í Friðarsamtökum eru ekki í aðstöðu til,“ segir Ástþór.

Hann segir að Íslendingar geti ekki einangrað sig frá því sem sé að gerast í heiminum, ófriður og aukin hryðjuverk geti haft áhrif á þann fjölda ferðamanna sem sækir Ísland heim. „Við sjáum það að ferðamannastraumur hefur snarminnkað til Parísar og það er bara tímaspursmál hvenær þetta bitnar á Íslandi. Við getum ekki setið aðgerðarlaus og við getum ekki verið að velta fyrir okkur embætti forseta sem skrautfjöður. Við höfum ekki efni á því.“ 

Þörf á hlutlausri umfjöllun

Ástþór er enginn nýgræðingur þegar kemur að forsetaframboði. Fyrst bauð hann sig fram árið 1996, síðan árið 2004 og aftur 2012, en þá var fram­boð hans dæmt ógilt þar sem ekki lá fyr­ir vott­orð yfir­kjör­stjórn­ar Norðvest­ur­kjör­dæm­is. Þar af leiðandi var talið að ákvæði 4. gr. laga um fram­boð og kjör for­seta Íslands, nr. 36/​​1945 væru ekki upp­fyllt. 1996 fékk hann 2,7% atkvæða og 2004 fékk hann 1,5%. Spurður hvort hann telji að framboð hans nú fái meiri hljómgrunn en þau fyrri kveður hann já við. 

„Við þurfum að fá hlutlausa fjölmiðlun um forsetakosningarnar. Þegar ég var í framboði 1996 var vandamálið það að stuðningsmenn forsetans áttu stærstu fjölmiðlasamsteypu landsins fyrir utan Ríkisútvarpið og Morgunblaðið. Sá sem var framkvæmdastjóri framboðs hans var forstjóri samsteypunnar. Ég tel ekki að málefni mín hafi fengið eðlilega umfjöllun þannig að fólk geti hugsað þetta út frá málefnalegum grunni. Þetta er allt fullt af afdróttunum og neikvæðum uppslætti, hálfkveðnum vísum og jafnvel algjörum spuna upp úr gróusögum,“ segir Ástþór.

Hann segir forsetaembættið á tímamótum. „Hvert munum við stefna. Verður þetta áfram fjárhagslegur baggi á þjóðinni eða verður þetta okkar stærsta tekjulind? Ef ég fæ mínu framgengt að virkja Bessastaði þá verður forsetaembættið ein stærsta tekjulind þjóðarinnar. Það mun færa svo mikla starfsemi til Íslands tengt friðarmálum,“ segir Ástþór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert