Ólafur aftur í forsetaframboð

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætlar að bjóða sig fram á ný til embættis forseta í kosningum í sumar. Þetta kom fram á fréttamannafundi sem Ólafur hélt á Bessastöðum.

Í ávarpi á fundinum fór Ólafur yfir þá pólitísku þróun sem hefur verið hér á landi frá bankahruninu árið 2008 með kosningum árið 2009, tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum vegna Icesave og svo mótmælum í þessum mánuði og skipun nýrrar ríkisstjórnar.

Sagði hann ástandið í dag enn vera viðkvæmt þótt Íslendingum hafi miðað vel eftir bankahrunið. Í ljósi þessa umróts sagði Ólafur að fjöldi einstaklinga hafi höfðað til skyldu hans, reynslu og ábyrgðar og beðið hann að endurskoða ákvörðun sína frá því í nýársávarpi þar sem hann sagðist ekki ætla að bjóða sig fram til forseta á ný.

Ólafur sagði að iðulega hafi verið vísað til þess að eftir Alþingiskosningar væri myndun stjórnar erfið og sambúð nýs þings og þjóðar gæti verið erfið og spennuþrungin.

Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnir að hann bjóði sig fram að …
Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnir að hann bjóði sig fram að nýju til forseta.

Sagði hann að í ljósi atburða síðustu vikna og í ljósi óvissunnar framundan hafi alda þrýstings verið orðið æði þung og þessi þróun hafi sett hann í vanda og sett á þann þrýsting. 

Ólafur sagði að hann hefði því boðað fjölmiðla á Bessastaði til að tilkynna að eftir mikla umhugsun væri niðurstaða hans að verða við þeim óskum sem komið hefðu fram um að sækjast eftir embætti forseta aftur. Tók hann þó fram að ef þjóðin kysi annan forseta tæki hann því fagnandi.

Eftir tilkynningu sína var Ólafur spurður hvort hann teldi sig orðinn ómissandi í embætti sínu. Sagði hann það víðsfjarri og að það væri þjóðarinnar að velja forseta og ef hæfari einstaklingur kæmi til væri hann mjög ánægður með það.

Tvær vikur eru nú liðnar síðan Ólafur Ragnar flýtti heimför sinni úr fríi í kjölfar uppljóstrana Reykja­vík Media um af­l­ands­fé­lag Sig­mund­ar Davíð Gunn­laugs­son­ar, þáver­andi for­sæt­is­ráðherra. Sigmundur fór á fund forsetans á þriðjudaginn og sagði Ólafur Sigmund hafa beðið um að rjúfa þing en hann neitað að verða við því. Sigmundur sagði aftur á móti að hann hefði ekki óskað eftir heimild til að rjúfa þing. Sigmundur hætti svo sem forsætisráðherra og ný ríkisstjórn mynduð undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Ólafur Ragnar á blaðamannafundinum á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar á blaðamannafundinum á Bessastöðum í dag.
Thomsen-stofan á Bessastöðum þar sem fundur fosetans er haldinn.
Thomsen-stofan á Bessastöðum þar sem fundur fosetans er haldinn.
Ólafur Ragnar les yfirlýsingu í Thomsen-stofunni á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar les yfirlýsingu í Thomsen-stofunni á Bessastöðum.
mbl.is