Metur forsendur framboðs síns

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Golli

Ólafur Ragnar Grímsson segir það þurfa að koma í ljós hvort hann standi við framboð sitt til forseta og hann hljóti að hugsa sig um hvernig hann bregðist við aðstæðum sem séu gjörbreyttar frá því að hann tilkynnti um sinnaskipti sín. Hann sé ekki búinn að komast að niðurstöðu um það.

Í viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 þráspurði Björn Ingi Hrafnsson forsetann hvort að hann ætlaði að standa við framboð sitt í ljósi þess að Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson væru búnir að tilkynna um sín framboð.

Ólafur Ragnar vildi ekki gefa skýrt svar við því en sagði að allir sjái að gjörbreyttar aðstæður séu uppi nú en þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína um að gefa kost á sér til endurkjörs 18. apríl. Sagðist hann hljóta að taka mið af breyttum aðstæðum.

Viðurkenndi forsetinn að hann hafi á sínum tíma óttast að forseti yrði kosinn með 18-19% atkvæða. Hann hafi alltaf litið á sig sem þjón við hagsmuni þjóðarinnar og litið til þess að þegar hann léti af embætti yrði það við aðstæður þar sem þjóðin gæti kosið forseta með að minnsta kosti sambærilegum stuðningi og hann sjálfur og Vigdís Finnbogadóttir nutu. Forsetaembættið lenti ekki í upplausn.

Í þeim Guðna og Davíð sagði Ólafur Ragnar að væru komnir fram menn sem væru annars vegar einn mesti sérfræðingur í forsetaembættinu á landinu og sá núlifandi Íslendingur sem hafi ásamt forsetanum sjálfum setið hve lengst í ríkisráði. Varla væri hægt að hugsa sér dramatískari breytingar á stuttum tíma.

Ólafur Ragnar sagði það blasa við að með þessum tveimur framboðum sé staðan breytt að því leyti að þjóðin eigi nú kost á því að velja einstaklinga sem hafa þekkingu og reynslu gagnvart embættinu. Þegar knúið var á hann um að breyta ákvörðun sinni um að hætta sem forseti hafi þessi staða ekki blasað við. Hann hljóti að taka tillit til þess.

Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar Björns Inga vildi forsetinn ekki gefa skýrt svar um hvort að hann verði á kjörseðlinum í júní eða ekki.

Sakaði stjórn Jóhönnu um „frekjugang“

Ólafur Ragnar fór hörðum orðum um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í þættinum. Þegar hann tók ákvörðun um að bjóða sig fram aftur árið 2012 hafi fullveldi Íslands verið í uppnámi vegna aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu, stjórnarskráin sömuleiðis og þá hafi dómur ekki enn verið genginn í Icesave-málinu.

Þáverandi ríkisstjórn hafi gengið gegn vilja þorra þjóðarinnar í öllum málunum þremur. Sagði Ólafur Ragnar að einhver þyrfti að vera til staðar til að segja stopp við þessar aðstæður, þegar ríkisstjórn ætli að vaða áfram með „frekjugangi“ og binda hundruð milljarða bagga á þjóðina til frambúðar án þess að lúta þjóðarvilja.

Fullyrti hann að ríkisstjórn Jóhönnu hafi ekki viljað verja hagsmuni Íslands. Mark Íslands hafi staðið opið og hver sem er hafi getað tekið boltann og skorað því enginn hafi viljað flytja mál landsins. Því sagðist Ólafur Ragnar hafa „neyðst“ til þess að fara í erlenda fjölmiðla til að tala máli Íslands sem hafi verið nýjung fyrir forsetaembættið.

Sagði Ólafur Ragnar að margir af forvinum sínum tali enn ekki við sig eftir að hann gekk gegn vilja ríkisstjórnar Jóhönnu í Icesave-málinu. Það væri eitt af því sem forseti þyrfti að vera tilbúinn að standa frammi fyrir að ganga gegn öllum stuðningsmönnum sínum og vinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert