Kjördagur ekki einkamál ríkisstjórnarinnar

Stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík samþykkti fyrr í dag ályktun þar sem fram kemur að með öllu óþolandi sé að ríkisstjórnin hafi ekki gefið út dagsetningu fyrir næstu þingkosningar. Er þess krafist að tilkynnt verði strax hvenær kosið verði í haust.

„Kjördagur í haust er ekki einkamál ríkisstjórnarinnar. Það er með öllu óþolandi að starfsstjórn Sigurður Inga Jóhannessonar hafi ekki tekið af allan vafa og sett niður dagsetningu fyrir þingkosningar líkt og boðað var 5. apríl. Síðan eru liðnar sjö vikur. Stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík krefst þess að starfandi ríkisstjórn tilkynni strax hvenær kosið verður í haust. Ákveða þarf kjördag meðal annars út af ýmsum praktískum ástæðum sem snúa að utankjörfundaratkvæðagreiðslu og Íslendingum búsettum erlendis, en fyrst fremst vegna þess að búið var að lofa kjósendum kosningum í haust," segir í ákyktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert