Halla bætir við sig mestu fylgi

Fjórir frambjóðendur sem mælast nú með mest fylgi: Guðni Th. …
Fjórir frambjóðendur sem mælast nú með mest fylgi: Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir, sem bætir við sig mestu fylgi milli kannanna.

55,1% þeirra sem spurðir voru í þjóðmálakönnun Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Morgunblaðið sagðist myndu kjósa Guðna Th. Jóhannesson til embættis forseta Íslands ef kosið yrði í dag.

Fylgi Guðna er stöðugt frá síðustu könnun. Næstur á eftir Guðna er Davíð Oddsson sem hefur 15,9% stuðning og lækkar um 3,8 prósentustig frá síðustu könnun.

Halla Tómasdóttir bætir mestu fylgi við sig frá síðustu könnun, er nú með 12,3% fylgi, var 9,8% síðast. Halla er komin upp fyrir Andra Snæ Magnason, sem var með tæp 12% síðast en lækkar núna niður í 11%. Aðrir frambjóðendur eru með samanlagt 5,7% fylgi, að því er fram kemur í umfjöllun um könnun þessa í Morgunblaðinu í dag.

Unga fólkið styður Guðna

Ýmsan fróðleik má lesa úr bakgrunnsgreiningu svarenda könnunarinnar. Hún náði til 2.000 meðlima í netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Alls svöruðu 1.072 og var svarhlutfall 54% með tilliti til brottfalls. Guðni hefur stuðning helmings karla og 60% kvenna sem svöruðu könnuninni. Helmingur svarenda á aldrinum 18-29 ára styður Guðna en næstur hjá unga fólkinu kemur Andri Snær með 20% fylgi. Guðni nýtur einnig mests fylgis elstu kjósendanna, eða 59% hjá 60 ára og eldri, en Davíð nýtur næstmests fylgis þeirra eða 26%.

Sjálfstæðismenn styðja Davíð

Guðni nýtur mests stuðnings hjá öllum stjórnmálaflokkum þegar litið er til þess hvaða flokk svarendur myndu kjósa ef kosið yrði í dag, að Sjálfstæðisflokki undanskildum þar sem 53% styðja Davíð Oddsson. Þá myndu 29% þeirra sjálfstæðismanna sem svöruðu könnuninni kjósa Guðna í embætti forseta og 14% Höllu Tómasdóttur. Af þeim sem kusu Samfylkinguna í síðustu kosningum segjast 76% munu kjósa Guðna Th. og hið sama gildir um 75% þeirra sem segjast myndu kjósa Vinstri-græn ef kosið yrði á morgun. Þegar litið er til þeirra sem hafa lokið háskólanámi nýtur Guðni Th. 56% fylgis þeirra. Næstmest fylgi hjá sama hópi hefur Andri Snær, eða 18%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert